Utanríkisráðuneytið leggst gegn því að lögum um utanríkisþjónustu verði breytt þannig að auglýsa þurfi stöður sendiherra. Þetta kemur fram í svörun ráðuneytisins til Ríkisendurskoðunar, sem hvetur ráðuneytið í nýrri skýrslu til að beita sér fyrir því að stöður sendiherra verði auglýstar.
Í lögum um utanríkisþjónustuna er veitt heimild til þess víkja frá meginreglu um auglýsingaskyldu fyrir stöðu sendiherra. „Ríkisendurskoðun hvetur utanríkisráðuneyti til að beita sér fyrir því að heimild til að víkja frá meginreglu um auglýsingaskyldu fyrir stöðu sendiherra verði felld úr lögum um utanríkisþjónustu Íslands og stuðla þannig að auknu gagnsæi, jafnræði og vandaðri stjórnsýslu við skipanir í stöðu sendiherra,“ segir í skýrslu sem Ríkisendurskoðun hefur birt, en hún fjallar um rekstur og starfsemi sendiskrifstofa Íslands. Ríkisendurskoðun setur þar fram fimm ábendingar til utanríkisráðuneytisins, og undanþága vegna auglýsinga er ein þeirra.
Flutningsskylda og framgangskerfi í gildi
Utanríkisráðuneytið fékk að svara ábendingunum og birtast svör þess í skýrslunni. Þar kemur fram að vegna flutningsskyldu og framgangskerfis sem sé við lýði í utanríkisþjónustunni telji ráðuneytið mikilvægt að undanþága frá auglýsingaskyldu vegna starfa sendiherra verði áfram í gildi.
Starfsmenn í utanríkisþjónustu eru flutningsskyldir samkvæmt lögum „og innan hennar er framgangskerfi byggt á lögunum. Flutningsskyldan gerir það að verkum að framgangur starfsmanna hennar er ólíkur því sem gerist í öðrum opinberum stofnunum,“ segir í svari ráðuneytisins. Þar kemur fram að fjölgun í utanríkisþjónustunni eigi sér stað með því að laus störf séu auglýst samkvæmt reglum, og starfsmenn séu ráðnir til starfa í samræmi við niðurstöðu ráðningarferlis. Almennt sé fólk ráðið sem hafi nýlega hafið starfsferil að loknu námi og þjálfun til framtíðarstarfa í utanríkisþjónustu byggist meðal annars á þessum fyrstu árum, og fólk geti svo vænst framgangs í starfi.
Þá er rétt að taka fram að starfsmaður sem kemur til álita að hljóti framgang í embætti sendiherra hefur þegar sótt um laust auglýst starf, þ.e. við upphaf starfsferils síns.
„Framgangur til að gegna embætti sendiherra getur t.d. komið til þegar starfsmaður í sendiherrastöðu hefur töku eftirlauna og reyndur diplómat er skipaður í sendiherrastöðu í staðinn. Þegar sú staða er uppi, telst embætti sendiherra ekki laust í skilningi laga og reglna þannig að skylda til auglýsingar vakni. Þá er rétt að taka fram að starfsmaður sem kemur til álita að hljóti framgang í embætti sendiherra hefur þegar sótt um laust auglýst starf, þ.e. við upphaf starfsferils síns.“
Að jafnaði ekki sótt út fyrir utanríkisþjónustuna
Ráðuneytið segir að að jafnaði sé ekki sótt út fyrir utanríkisþjónustuna þegar skipað er í sendiherrastöður og stærstur hluti sendiherra séu með reynslumeiri starfsmönnum sem hafi byggt upp „staðgóða þekkingu á sviði alþjóðasamskipta og stjórnmála, starfi alþjóðastofnana og milliríkjaviðskipta á löngum tíma.“
Hins vegar sé hægt að öðlast sambærilega reynslu úr öðrum störfum og þá reynslu beri að meta eins og aðra. „Sendiherraefni utan raða utanríkisþjónustunnar, t.d. úr stjórnmálum, viðskipta- og menningarlífi, búa yfir mikilli reynslu af sambærilegum störfum, hafa ríka þekkingu á alþjóðamálum og eru góð viðbót við mannauð ráðuneytisins.“