Utanríkisráðuneyti Íslands er ekki kunnugt um að Íslendingar starfi með eða hafi starfað með ISIS-samtökunum með neinum hætti. Þetta segir Urður Gunnarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi ráðuneytisins.
Kjarninn greindi frá því í morgun að Sýrlendingurinn Abu Hamza, sem flúið hefur úr röðum ISIS-samtakanna, sem einnig eru þekkt sem Íslamska Ríkið, hefði sagt fréttaritara The Economist í Miðausturlöndum að íslenskur kvikmyndagerðarmaður hefði gengið til liðs við samtökin. Aðkoma hins íslenska kvikmyndagerðarmanns útskýri fagmannlega unnin myndbönd sem notuð séu til að laða nýja meðlimi að ISIS-samtökunum og til að vekja athygli á þeim á Vesturlöndum. Á meðal þeirra myndbanda sem ISIS-samtökin hefur dreift eru mynbönd af afhöfðunum vestrænna manna sem samtökin hafa verið með í haldi.
Fréttaritarinn, Sarah Birke, greindi frá þessu í bloggfærslu sem birtist í gær á heimasíðu New York Review of Books.
Á meðal þeirra myndbanda sem ISIS-samtökin hefur dreift eru mynbönd af afhöfðunum vestrænna manna sem samtökin hafa verið með í haldi.
Ísland hefur stutt við aðgerðir gegn ISIS
ISIS stendur fyrir íslamskt ríki Íraks í Sýrlandi og samtökin voru upphaflega hluti af Al Kaída. Þau klufu sig síðar frá og þykja mun róttækari en Al Kaída. ISIS-samtökin hafa náð undir sig stórum svæðum í Írak og Sýrlandi og berjast hatramlega gegn þarlendum stjórnvöldum. Fjölmargir Evrópubúar hafa gengið til liðs við samtökin undanfarin misseri. Þau hafa vakið á sér mikla athygli, og valdi óhug, með því að setja myndbönd af liðsmönnum sínum vera að afhöfða vestræna gísla á netið.
Íslensk stjórnvöld hafa stutt við alþjóðlegar aðgerðir gegn ISIS, sem felast meðal annars í hernaðarlegum stuðningi við írösk stjórnvöld, sporna við fjármögnun samtakana, að bregðast við áróðursstarfsemi þeirra, hafa eftirlit með farandsvígamönnum og stuðla að mannúðaraðstoð fyrir almenna borgara á þeim svæðum sem ISIS hefur herjað á.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sótti fund utanríkisráðherrafund þeirra sextíu ríkja sem taka þátt í aðgerðum gegn ISIS í Brussel í síðustu viku.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sótti fund utanríkisráðherrafund þeirra sextíu ríkja sem taka þátt í aðgerðum gegn ISIS í Brussel í síðustu viku. Í tilkynningu ráðuneytis hans, sem send var út eftir fundinn, sagði Gunnar Bragi: „Við styðjum aðgerðir gegn ISIS enda brýnt að bregðast grimmdarverkum samtakanna. Ísland leggur sín lóð á vogaskálarnar með því að styðja neyðar- og mannaúðaraðstoð fyrir óbreytta borgara í gegnum stofnanir Sameinuðu þjóðanna“.
ISIS skráði lén á Íslandi
Í október síðastliðnum var greint frá því að ISIS hefði skráð lén með .is endingum. Um var að ræða Khilafah.is, fréttasíðu samtakanna. ISNIC, sem fer með lénaskráningu .is léna, lokaði lénum sem ISIS notaðist við þann 12. október á grundvelli reglna fyrirtækisins um lénaskráningu, þar sem fram kemur að rétthafa léns beri að ábyrgjast að notkun léns sé í samræmi við íslensk lög.
Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem ISNIC hefur lokað léni vegna innihalds hans.