Gefin verða út skuldabréf í erlendri mynd sem og kvikar eignir færðar í langtímaeignir til að leysa út snjóhengjuna, þá tæpu 300 milljarða króna sem eftir eru af aflandskrónum sem eru í eigu annarra en slitabúa föllnu bankanna. Ekki hefur verið ákveðið í hvaða mynt skuldabréfin verða né hvort að þessi blandaða leið verði kynnt á sama tíma og frumvarp um álagningu stöðugleikaskatts verður lagt fram, en kynning á því frumvarpi verður fyrir mitt þetta ár. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.
Þar er einnig haft eftir Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, að enn eigi eftir að ákveðna hversu breiður skattstofn svokallaðs stöðugleikaskatts verður og hvernig útfærsla hans verður. Það liggur því ekki fyrir hvort að skatturinn eigi bara að ná til slitabúa föllnu bankanna eða fleiri.
Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur talað gegn stöðugleikaskattinum og sagt að honum muni fylgja málaferli að hálfu þeirra sem hann myndi leggjast á, með þeim rökum að um eignaupptöku væri að ræða. Það myndi leiða til þess að tefja fyrir losun hafta. Bjarni segir við Morgunblaðið að hann óttist ekki málaferli. Stöðugleikaskatturinn muni uppfylla ströngustu kröfur.
Ekki nýjar leiðir
Sú lausn sem verið er í raun í fullu samræmi við þær leiðir sem Bjarni boðaði í greinargerð sinni til Alþingis um framgang áætlunar um losun fjármagnshafta sem birt var 18. mars síðastliðinn. Þar sagði að tvær leiðir væru færar til þess að taka á þeim greiðslujafnaðarvanda sem Ísland stendur frammi fyrir við losun fjármagnshafta. Önnur er sú að eigendur innlendra eigna veiti afslátt á þeim í skiptum fyrir erlendan gjaldeyri. Á síðustu dögum hefur sú leið verið kennd við stöðugleikaskatt.
Hin er sú að tryggja að kvikar eignir, þær sem eru líklegar til að vilja fara út úr íslensku hagkerfi við losun hafta, færist í langtímaeignir. Sú leið sem Bjarni lýsir í Morgunblaðinu í dag, að gefa út skuldabréf í erlendri mynt og færa kvikar eignir í langtímafjárfestingar, rímar að fullu við þá leið sem boðuð var í greinargerðinni.