Árið 2004 voru fluttar út vörur til Rússlands fyrir um 2,3 milljarða króna en á árinu 2014 var útflutningurinn kominn í 29,2 milljarða króna. Frá þessu er greint á vefsíðu Hagstofunnar, sem fjallar í dag um vöruviðskipti við Rússland og ber saman viðskipti milli áranna 1999, 2004, 2009 og 2014, á gengi hvers árs. Tölur Hagstofunnar byggja á tollskýrslum.
Stærsti hluti útflutnings til Rússlands er uppsjávarfiskur, aðallega makríll og síld. Um þriðjungur af heildarútflutningi á uppsjávarfiski á árinu 2014 fór til Rússlands.
Innflutningur frá Rússlandi hefur haldist nokkuð stöðugur milli ára og var 3,1 milljarðar árið 2014. Mest var flutt inn af olíu og álblendi. Vegna mikillar aukningar á útflutningi hefur vöruskiptajöfnuður við Rússland farið frá því að vera óhagstður um 3,1 milljarða árið 1999 yfir í að vera hagstæður um 26 milljarða árið 2014.
Innflutningsbann á matvæli frá Íslandi, með örfáum undantekningum, tók gildi í síðustu viku. Eins og fram hefur komið getur það haft veruleg áhrif á útgerðir og útflutningsverðmæti, en Rússland er stærsti markaður uppsjávarfisks.