Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins og mbl.is, tapaði 42 milljónum króna í fyrra. Árið áður skilaði samstæðan sex milljóna króna hagnaði. Stór hluti breytinga í afkomu er tilkominn vegna kostnaðar við starfslok sem gjaldfærður var í fyrra. Tekjur Árvakurs drógust saman á milli ára og voru 3,2 milljarðar króna. Þá jukust rekstrargjöld, en þau voru um 3,1 milljarður króna. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir var 103 milljónir króna og dróst saman um 60 milljónir króna á árinu. Þetta kemur fram í frétt um uppgjörið í Morgunblaðinu í dag. Ársreikningi Árvakurs hefur hins vegar ekki verið skilað til ársreikningaskráar.
Í fréttinni segir einnig að breytingar hafi orðið á eignarhaldi Þórsmerkur, aðaleiganda Árvakurs á aðalfundi sem haldinn var á dögunum. Legalis sf., félag sem Sigurbjörn Magnússon veitir forstöðu, hafi keypt hluti Óskars Magnússonar, fyrrum útgefanda Árvakurs og félags hans. Sigurbjörn var kjörin til áframhaldandi setu í stjórn Árvakurs ásamt Ásdísi Höllu Bragadóttur og Bjarna Þórði Bjarnasyni. Auk þess voru Katrín Pétursdóttir og Friðbjörn Orri Ketilsson kosin ný inn í stjórn. Friðbjörn Orri var árum saman ritstjóri og ábyrgðarmaður umdeilds vefs sem hét amx.is. Vefurinn hætti starfsemi 1. október 2013.
Breytingar á eignarhaldi Þórsmerkur hafa ekki verið tilkynntar til Fjölmiðlanefndar. Þar eru eignarhlutir Óskars og félags hans sagðir vera samanlagt 12,37 prósent.
Eignarhald Árvakurs samkvæmt upplýsingum á síðu nefndarinnar:
Óskar Magnússon, 0,08 prósent
Rammi hf., forsv.maður Ólafur Marteinsson, 6,14 prósent
Laugarholt ehf., forsv.maður Þorgeir Baldursson, 0,08 prósent
Krossanes ehf., forsv.m. Þorsteinn Már Baldvinsson, 18,43 prósent
Páll Hreinn Pálsson, 2,05 prósent
Hlynur A ehf., forsv.maður Guðbjörg Matthíasdóttir, 16,38 prósent
Áramót ehf., forsv.maður Óskar Magnússon, 12,29 prósent
Brekkuhvarf ehf., forsv.m. Ásgeir Bolli Kristinson, 2,05 prósent
Legalis sf., forsv.maður Sigurbjörn Magnússon, 1,97 prósent
Kaupf. Skagfirðinga, forsv.m. Sigurjón Rafnsson, 9,01 prósent
Fjárf.félagið GIGAS ehf. forsv.m. Halldór Kristjánsson, 4,10 prósent
Skollaborg ehf., forsv.m. Einar Valur Kristjánsson, 1,72 prósent
Fari ehf., forsv.maður Jón Pálmason, 2,05 prósent
Síldarvinnslan hf., forsv.maður Gunnþór Ingvason 6,14 prósent
Þingey ehf., forsv.maður Aðalsteinn Ingólfsson 4,10%
Ísfélag Vestmannaeyja hf., forsv.maður Stefán Friðriksson 13,43 prósent
Miklar afskriftir frá hruni
Eftir bankahrunið var fjárhagsstaða Árvakurs afleit og félagið nær algjörlega upp á náð og miskunn Íslandsbanka komið. Útgáfufélagið var rekið með 570 milljóna króna halla á árinu 2008. Áætlanir sem unnið var eftir höfðu gert ráð fyrir 340 milljóna króna hagnaði og því var raunveruleikinn 910 milljónum krónum verri en upphaflegt plan. Auk þess skuldaði félagið 4,4 milljarða króna.
Þann 26. febrúar 2009 var tilkynnt að hópur undir forystu Óskars Magnússonar, sem hafði stofnað félagið Þórsmörk ehf. utan um tilboðið, myndi eignast Árvakur með yfirtöku skulda og nýju hlutafé. Auk Óskars tilheyrðu Guðbjörg Matthíasdóttir, Gísli Baldur Garðarsson, Gunnar B. Dungal, Pétur H. Pálsson, Þorgeir Baldursson í Odda og útgerðarkongurinn Þorsteinn Már Baldvinsson hópnum. Augljós sjávarútvegskeimur var af félaginu og margir eigendur þess höfðu náin tengsl við Sjálfstæðisflokkinn. Þessi hópur hefur síðan tekið nokkrum breytingum, líkt og sést á upptalningu eigenda hér að ofan.
Hinir nýju eigendur höfðu fengið vænlega skuldarniðurfellingu þegar þeir tóku við Árvakri. Alls voru skuldirnar lækkaðar um 3,5 milljarða króna. Þrátt fyrir þessa miklu niðurfellingu gekk reksturinn illa og rekstrartap Árvakurs var 667 milljónir króna á árinu 2009. Árið eftir tapaði það 330 milljónum króna alls og á árinu 2011 nam tapið 205 milljónum króna. Tapið var skaplegra árið 2012, eða 47 milljónir króna. Nýir eigendur hafa sett mikið fé í reksturinn til að mæta þessu mikla tapi.
Það hefur ekki dugað til og skuldir Árvakurs voru lækkaðar um tæpan milljarð króna í viðbót í lok árs 2011. Í ársreikningi félagsins fyrir það ár kom fram að lækkunin hefði verið hluti af fjárhagslegri endurskipulagningu þess. Árvakur er því eitt fárra fyrirtækja sem hefur farið tvívegis í gegnum þvottavélina frá bankahruni.