Tap Árvakurs hf., útgáfufélags Morgunblaðsins og mbl.is sem einnig rekur útvarpsstöðina K100, nam 75 milljónum króna í fyrra. Frá þessu var greint í Morgunblaðinu í dag og tekið fram að tapið væri mun minna en árið 2019, þegar félagið tapaði 210 milljónum.
Sá munur var á rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla árið 2020 miðað við árið 2019 að í fyrra ákvað Alþingi að veita rekstrarstuðning til þess að mæta efnahagsáhrifum heimsfaraldursins.
Styrkurinn sem Árvakur fékk nam alls 99,9 milljónum króna, en eitt hundrað milljóna króna þak var á styrkjum til hvers fjölmiðlafyrirtækis. Alþingi samþykkti undir lok maí að sambærilegir styrkir yrðu áfram veittir einkareknum fjölmiðlum út næsta ár.
Miklar hagræðingaraðgerðir
Í frétt Morgunblaðsins um niðurstöðu síðasta rekstrarárs er haft eftir Haraldi Johannessen, framkvæmdastjóra Árvakurs og öðrum ritstjóra Morgunblaðsins, að verulegur samdráttur hafi verið á auglýsingamarkaðnum í kórónuveirufaraldrinum.
Hann segir að ástæða þess að reksturinn hafi engu að síður haldið áfram að batna á milli ára hjá Árvakri sé sú að á síðustu árum hafi verið gripið til „mjög veigamikilla hagræðingaraðgerða sem skiptu sköpum þegar höggið vegna kórónuveirunnar skall á“ en ekkert er minnst á þátt hundrað milljón króna ríkisstyrks í rekstrarbata útgáfufélagsins.
Samstæða Þórsmerkur ehf., sem er aðaleigandi Árvakurs, var rekin með 62 milljóna króna tapi í fyrra, sem er nokkur rekstrarbati frá 2019 þegar tap samstæðunnar nam 210 milljónum króna.
Hátt í 2,6 milljarða tap frá því að nýir eigendur tóku við
Haft er eftir Haraldi í Morgunblaðinu í dag að jákvætt sé að sjá að þróunin hafi verið í rétta átt. Tap Árvakurs í fyrra var það minnsta allt frá árinu 2016, er félagið tapaði 50 milljónum króna. Árið 2017 nam tapreksturinn 284 milljónum og árið 2018 var útgáfufélagið rekið með 415 milljóna króna tapi og 210 milljóna króna halla árið 2019, sem áður segir.
Samandregið tap Árvakurs frá því að nýir eigendur komu að rekstri útgáfufélagsins árið 2009 nemur yfir 2,5 milljörðum krónum og hafa hluthafar félagsins ítrekað þurft að leggja útgáfunni til fé.
Haraldur segir að það sé „ánægjulegt“ að í gegnum þrengingar í rekstri hafi „tekist að halda fjölmiðlum Árvakurs öflugum og í raun einstökum á íslenskan mælikvarða“ og segir hann að ekkert annað fjölmiðlafyrirtæki bjóði upp á viðlíka gæði og breidd í efnisframboði og Árvakur.
„Það sýnir styrk Árvakurs að hafa þrátt fyrir erfiðleika síðustu missera og ára ekki aðeins getað haldið í horfinu heldur einnig haldið áfram að byggja upp nýja miðla og aukið efnisframboð, bæði fyrir áskrifendur og aðra notendur miðlanna,“ er haft eftir Haraldi.
Dvínandi lestur og hörð samkeppni á netinu
Lestur Morgunblaðsins, sem er stærsti áskriftarmiðill landsins, hefur verið á undanhaldi undanfarin ár.
Samkvæmt tölum Gallup um lestur dagblaða á Íslandi lesa nú innan við 20 prósent landsmanna Morgunblaðið og innan við tíu prósent fólks á aldrinum 18-49 ára.
Á sama tíma og lestur prentmiðla dvínar hefur mbl.is, sem um árabil hafði verið mest lesni vefmiðill landsins nær allar vikur ársins samkvæmt vefmælingum Gallup, verið skákað af þeim stalli það sem af er ári. Vísir.is, vefmiðill í eigu Sýnar, hefur náð að taka fram úr hvað fjölda notenda varðar.
Af þeim 24 vikum sem liðnar eru af árinu og vefmælingar Gallup hafa tekið báða miðlana með (mbl.is var ekki með í einni mælingu) hefur Vísir verið með fleiri meðalnotendur en mbl.is í 16 vikur, en mbl.is verið með yfirhöndina í 8 vikur.
Þó skal tekið fram að mjótt er á munum og lestur beggja miðla er í hæstu hæðum og ná þeir á hverjum meðaldegi til um eða yfir 200 þúsund notenda.