Útgáfufélag Viðskiptablaðsins, Fiskifrétta og tengdra miðla, Myllusetur ehf., tapaði 35,6 milljónum króna á árinu 2020. Rekstrartekjur félagsins drógust saman 14 milljónir króna milli ára en gjöld hækkuðu lítillega og voru 274 milljónir króna. Afkoma ársins 2020 var neikvæð um 55,2 milljónir króna að tekju tilliti til fjármagnsliða og vaxtagjalda. Árið á undan, 2019, var afkoma Mylluseturs 1,6 milljónir króna. Sennilegast er að munurinn á uppgefnu tapi og afkomu skýrist á því að Myllusetur fékk um 20 milljónir króna í rekstrarstuðning úr ríkissjóði á síðasta ári.
Þetta kemur fram í óendurskoðum ársreikningi Mylluseturs vegna ársins 2020 sem skilað var inn til ársreikningaskrár í síðustu viku en birtur í gær. Þar segir enn fremur að eignir félagsins hafi dregist saman um 50 milljónir króna milli ára og verið tæplega 157 milljónir króna í lok síðasta árs. Varanlegir rekstrarfjármunir til að mynda saman um 24,5 milljónir króna. Skuldirnar lækkuðu um tæpar fimm milljónir króna en voru 141,5 milljónir króna um síðustu áramót.
Eigendur Mylluseturs eru tveir, félagið PÁJ Invest í eigu Péturs Árna Jónssonar sem á 67 prósent hlut, og SBJ Invest í eigu Sveins Biering Jónsonar sem á 33 prósent hlut. Félagið hafði skilað smávægilegum hagnaði, undir tveimur milljónum króna, á árunum 2018 og 2019.
Nýttu hlutabótaleið
Launagreiðslur Mylluseturs drógust saman um 20 milljónir króna milli ára þrátt fyrir að meðalfjöldi starfsmanna hafi verið 18, líkt og árið áður. Þar getur skipt máli að Myllusetur setti alls 15 manns á hlutabótaleiðina í fyrra sem fól í sér að ríkissjóður greiddi hluta launa þeirra á tímabili.
Þegar úthlutunarnefnd um úthlutun rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla tilkynnti um niðurstöðu sína vegna styrja sem greiddir voru út 2021 í síðasta mánuði kom fram að Myllusetur fengi 26,8 milljónir króna í sinn hlut.
Viðskiptablaðið kemur út á fimmtudögum og er selt í áskrift. Alls lesa 6,1 prósent landsmanna það blað og hjá aldurshópnum 18 til 49 ára mælist lesturinn 6,2 prósent.
Lesturinn hefur tekið ágætis kipp upp á við síðustu mánuði en í mars 2021 fór heildarlestur niður í 4,3 prósent og lesturinn hjá fullorðnum undir fimmtugu niður í 2,9 prósent. Það var í fyrsta sinn sem lestur Viðskiptablaðsins fór undir þrjú prósent hjá fullorðnum lesendum undir fimmtugu.
Auk blaðaútgáfu heldur Myllusetur úti fréttavefunum vb.is og fiskifrettir.is auk þess sem útgáfufélagið stendur að útgáfu Íslenska sjómannaalmanaksins.