Útgerðarmenn gerðu grein fyrir miklum áhyggjum sínum af því ef Rússar munu loka á innflutning frá Íslandi á fundi með Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra í gær. Á fundinum voru yfir tuttugu manns, fulltrúar sjávarútvegsfyrirtækja, LÍÚ og utanríkisráðuneytisins.
Orðrómur þess efnis hefur verið á sveimi á mörkuðum í Rússlandi, og hafa fiskkaupendur í Rússlandi þegar dregið sig úr viðskiptum vegna þessa, en Hjörtur Gíslason, framkvæmdastjóra Ögurvíkur, staðfesti það í gær.
Engar formlegar tilkynningar hafa borist enn um að Rússar ætli sér að breyta afstöðu sinni hvað Ísland varðar, samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu. Ísland getur flutt vörur til Rússlands, vandkvæðalítið, en miklir hagsmunir eru í húfi, ekki síst um þessar mundir. Um 20 milljarða viðskipti voru við Rússland í fyrra, þar af 18 milljarðar vegna sölu á makrílafurðum. Haustin eru mikilvægur tími þegar makrílviðskipti eru annars vegar og því eru margir útgerðarmenn uggandi yfir því ef lokast á viðskiptin við Ísland. Um 47 prósent af öllum makríl sem seldur er héðan fer á Rússlandsmarkað.
Samkvæmt upplýsingum sem íslenskir útgerðarmenn hafa fengið, og ræddar voru á fundinum í utanríkisráðuneytinu, þá getur ákvörðun um lokun á viðskiptum komið fram svo til fyrirvaralaust. Þegar tilkynnt var um innflutningsbannið, 23. júní síðastliðinn, þá fengu Norðmenn mjög lítinn fyrirvara um það, sem olli miklu tjóni, bæði fyrir kaupendur og seljendur, þar sem misjafnt er hvernig staðið er að uppgjöri á slíkum viðskiptum.
Hinn 15. október birti Evrópuráðið tilkynningu, um að Ísland, Makedónía, Svartfjallaland, Albanía, Liechtenstein, Noregur, auk Úkraínu og Georgíu,stilltu sér upp með Evrópusambandsríkjum, með ákvörðun frá 23. júní, um hertar viðskiptaþvingangir gegn Rússum. Samkvæmt heimildum Kjarnans fór þetta illa í Rússa sem hafa hug á því að loka á viðskipti við þessi ríki, eða í það minnsta bregðast við með aðgerðum. Eins og áður segir liggur þó engin formleg ákvörðun um það fyrir ennþá.