Útgerðir smábáta og fiskiskipa á Íslandi hafa hagnast um hátt í áttatíu milljarða króna á síðastliðnum fimm árum, eða frá árinu 2009. Þetta kemur fram í upplýsingum sem Creditinfo tók saman að beiðni Kjarnans, en tölurnar eru unnar upp úr ársreikningum útgerðarfyrirtækjanna. Enn eiga þó nokkur hundruð útgerðarfyrirtæki, eftir að skila ársreikningum fyrir árið 2013 og því er viðbúið að talan eigi eftir að hækka enn frekar. Frestur til að skila inn ársreikningum rann út 31. ágúst síðastliðinn.
"Ókeypis" makrílveiðar hafa sitt að segja
Árið 2009 nam hagnaður útgerðarinnar röskum 4,5 milljörðum króna miðað við fyrirliggjandi árseikninga þeirra ríflega eitt þúsund útgerðarfyrirtækja sem skiluðu ársreikningum það ár. Árið á eftir nam hagnaður umræddra félaga rúmum fjórtán milljörðum króna, en árið 2011 tók hagnaðurinn mikið stökk upp á við og nam rúmlega 28,5 milljörðum króna. Stökkið má að miklu leyti þakka makrílveiðum Íslendinga, sem útgerðin sinnir endurgjaldslaust, þ.e. hefur ekki greitt krónu fyrir aflaheimildirnar.
Hagnaður útgerðarfyrirtækjanna nam tæpum 16 milljörðum króna árið 2012, og í fyrra hljóðaði hagnaður fyrirtækjanna upp á röska 15 milljarða króna. Sem fyrr er athygli vakin á því að hátt í helmingur útgerðarfyrirtækjanna sem um ræðir á enn eftir að skila ársreikningum fyrir árið 2013, eða um fimm hundruð fyrirtæki.
Heildareignir og eigið fé hækkar samhliða
Á umræddu tímabili, það er frá árinu 2009, hafa heildareignir félaganna sem um ræðir sömuleiðis hækkað. Heildareignir eru eignir að frádregnum skuldum. Í lok árs 2009 námu heildareignir útgerðarfyrirtækjanna ríflega 198 milljörðum króna, tæpum 204 milljörðum árið á eftir, tæpum 222 milljörðum árið 2011, röskum 203 milljörðum árið 2012 og miðað við fyrirliggjandi ársreikninga sem þegar hafa borist, námu eignir útgerðarfyrirtækjanna tæpum 88 milljörðum króna í fyrra.
Til marks um hversu skuldsettur geirinn var við bankahrunið, var eigið fé útgerðarfélaganna neikvætt um ríflega 22,7 milljarða í árslok 2009. Tveimur árum síðar var eigið fé félaganna komið ríflega 31 milljarð króna réttum megin við núllið, en árið 2012 nam eigið fé útgerðarfyrirtækjanna tæpum 37 milljörðum króna. Samkvæmt ársreikningum þeirra útgerðarfyrirtækja sem skilað hafa inn ársreikningi fyrir árið í fyrra, nam eigið fé þeirra í lok árs, tæpum 19 milljörðum króna.
Veiðigjöld lækka um 1,8 milljarða á milli ára
Til samanburðar má nefna að miðað við fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, er gert ráð fyrir tæpum 44,9 milljörðum króna til reksturs Landspítalans á næsta ári. Í sama fjárlagafrumvarpi lækka veiðigjöld á útgerðina um 1,8 milljarða króna á næsta ári. Þá er áætlað að þau verði um átta milljarðar króna, en gjaldið skilar um 9,8 milljörðum króna í ríkiskassann á þessu ári.
Ríkisstjórnin réðst í breytingar á veiðileyfagjöldum sumarið 2013 með það fyrir augum að lækka það, þrátt fyrir myljandi hagnað í greininni. Ákvörðunin var gagnrýnd og Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Columbia-háskóla í New York, hefur sagt að engin hagfræðileg rök séu fyrir lækkuninni.