Útgjöld ríkisins jukust um 26,6 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2015 samanborið við fyrstu sex mánuðina 2014. Á sama tíma jukust tekjur um 14,2 milljarða króna. Handbært fé frá rekstri var neikvætt um 30,3 milljarða króna samanborið við jákvætt handbært fé upp á rúma ellefu milljarða króna í fyrra. Tekjujöfnuður, munur á tekjum og gjöldum, var jákvæður um 779 milljónir króna.
Greiðsluafkoma ríkissjóðs fyrir fyrri helming árs 2015 var birt í dag. Þar segir að neikvæð staða handbærs fjárs skýrist að stærstum hluta með því að leiðrétting verðtryggðra húsnæðislána sem gjaldfærð var á árinu 2014 kom til greiðslu nú í byrjun árs 2015. „Þetta hefur eingöngu áhrif á sjóðshreyfingar en ekki rekstrarstöðu ársins 2015 og hafði sambærileg jákvæð áhrif á handbært fé í lok árs 2014,“ segir í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.
Bjarni Benediktsson er fjármálaráðherra.
Hér að neðan má lesa um helstu tekjur og gjöld ríkissjóðs á fyrstu sex mánuðum ársins.
Tekjur af tekjum, tóbaki og tollum
Innheimtar tekjur námu 320,5 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins sem er 4,6 prósent meira en innheimtist á sama tímabili í fyrra. Niðurstaða tímabilisins er 25,3 milljörðum yfir áætlun fjárlaga, eða 8,6 prósentum hærra en áætlað var. Það er sagt umtalsvert. „Það skýrist þó að miklu leyti af ýmsum óreglulegum og tilfallandi þáttum sem nánar verður farið yfir hér á eftir. Þegar litið er til þróunar skattstofna á fyrri helmingi ársins er hún í megindráttum í samræmi við áætlun fjárlaga.“
Nærri 86 prósent heildartekna eru af innheimtu hinna ýmsu skatta og tryggingagjalda. Sá hluti jókst um 6,1 prósent milli ára. Skattar á tekjur og hagnað jukust um 9,6 prósent milli ára og námu samtals 116,7 milljörðum króna. Tekjuskattur einstaklinga nam 65,3 milljörðum króna sem er 3,8 prósentum meira en í fyrra. Tekjuskattur lögaðila jókst um 34 prósent milli ára og nam 26,6 milljörðum króna. Þar af nam sérstakur fjársýsluskattur 4,9 milljörðum króna. Fjármagnstekjuskattur skilaði 24,7 milljörðum króna og jókst um 4,5 prósent milli ára. Fjármagnstekjuskattur greiddur af ríkinu sjálfu nam 5,6 milljörðum. Það skýrist af arðgreiðslu Landsbankans til eiganda síns, ríkissjóðs.
Eignarskattar drógust saman milli ára um 35,2 prósent og námu 3,5 milljörðum króna. Það skýrist af brottfalli auðlegðarskatts frá og með síðustu áramótum. Stimpilgjöld námu 1,8 milljarði króna sem er aukning um 14,7 prósent frá því í fyrra. Tekjur af erfðafjárskatti drógust saman um 15,4 prósent milli ára og námu 0,9 milljörðum.
Skattar á vöru og þjónustu jukust um 5,8 prósent milli ára og námu samtals 112,5 milljörðum króna. Virðisaukaskattur vegur þar þyngst og skilaði 77,9 milljörðum.
Vörugjöld af ökutækjum námu 3,4 milljörðum og eykst um 33,7 prósent milli ára. Það skýrist af auknum innflutningi bifreiða. Vörugjöld af bensíni skiluðu 5,6 milljörðum og olíugjaldið, sem jókst um 6,7 prósent milli ára, skilaði 3,4 milljörðum. Kolefnisgjaldið skilaði 1,6 milljarði króna.
Tekjur af tóbaksgjaldi námu 2,9 milljörðum króna og drógust saman um 3,7 prósent. Tekjur af áfengisgjaldi námu 5,9 milljörðum og var rétt yfir áætlun. Sala áfengis á fyrstu sex mánuðum ársins mæld í vínanda jókst um rúmlega 1 prósent en tóbakssala dróst saman um 3,2 prósent að magninu til.
Tollar og aðflutningsgjöld námu 2,6 milljörðum króna. Það er samdráttur um 3,7 prósent og skýrist af áhrifum fríverslunarsamnings Íslands og Kína frá 1. júlí 2014.
Aðrir skattar námu samtals 4 milljörðum.
Gjöld vegna lánaniðurfærslna, heilbrigðismála og löggæslu
Greidd gjöld námu 319,7 milljörðum króna og jukust um 26,6 milljarða króna frá fyrra ári, eða um 9,1 prósent, sem er minna en gert hafði verið ráð fyrir.
Útgjöld til almennrar opinberar þjónustu voru svipuð milli ára og námu 70,8 milljörðum króna. Fjármagnskostnaður ríkissjóðs skýrir stærstan hluta upphæðarinnar, eða 64 prósent. Hann nam 45,4 milljörðum króna á tímabilinu. Greiðslur til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga námu 8,8 milljörðum og útgjöld vegna utanríkismála námu 4,7 milljörðum króna. Útgjöld vegna fjármálastjórnsýslu ríkisins voru 5,3 milljarðar og útgjöld til annarra liða sem falla undir almenna opinbera þjónustu voru um 6,6 milljarðar.
Útgjöld vegna lögð og réttargæslu námu um 10,8 milljörðum og voru svipuð milli ára. Útgjöld til efnahags- og atvinnumála námu 45,4 milljörðum króna og jukust töluvert. Fjármálaráðuneytið segir það í samræmi við það sem gert var ráð fyrir. Stærsti útgjaldaliðurinn, 17,1 milljarður króna, er vegna niðurfærslu verðtryggðra húsnæðislána. Útgjöld til samgöngumála námu 11,3 milljörðum, um 6,7 milljörðum til landbúnaðarmála og útgjöld vegna almennra atvinnumála og markaðseftirlits námu 3,1 milljarði.
Útgjöld til heilbrigðismála námu rúmum 73 milljörðum króna og jukust um 5,1 milljarð. Útgjöld til menningar- og félagsmála námu um 9,5 milljörðum króna. Útgjöld vegna almannatrygginga og velferðarmála námu 63,9 milljörðum króna.
Útgjöld vegna atvinnuleysis námu 6,4 milljörðum samanborið við 7,7 milljarða í fyrra. Önnur útgjöld námu 15,4 milljörðum. Útgjöld vegna lífeyrisskuldbindinga námu 6,1 milljarði króna.
Hreinn lánsfjárjöfnuður ríkissjóðs er neikvæður um 12,4 milljarða króna en var á sama tíma í fyrra jákvæður um 3,7 milljarða. Afborganir lána námu samtals 54,2 milljörðum. Lántökur á fyrri helmingi árs námu alls 29,5 milljörðum og voru allar innlendar.