Heildarútgjöld til rannsókna og þróunar námu 2,5 prósentum af landsframleiðslu í fyrra og er það hæsta hlutfall sem mælst hefur hérlendis frá árinu 2010. Ef tekið er tillit til landsframleiðslu er þetta þú nokkuð undir meðalútgjöldum hinna Norðurlanda og minna en útgjöldin hérlendis á árunum 2000-2007.
Mun minni stuðningur eftir hrun
Hagstofan greindi frá því í gær að hlutfall útgjalda til rannsókna- og þróunarstarfs af landsframleiðslu hérlendis í fyrra hafi verið það hæsta sem mælst hafi frá því að Hagstofa Íslands tók við umsjón tölfræðinnar árið 2014. Þau námu alls 70,8 milljörðum króna árið 2020, sem er rúmlega tvöfalt meira en heildarupphæð útgjaldanna árið 2013.
Í gagnabanka Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) má hins vegar finna tölur um þessi útgjöld alveg aftur til ársins 2000. Samkvæmt þeim námu útgjöldin að meðaltali um 2,7 prósentum af landsframleiðslu á árunum 2000-2007 og var það sambærilegt hlutfall og á hinum Norðurlöndunum. Samanburðinn má sjá á mynd hér að neðan.
Í kjölfar efnahagshrunsins lækkaði þó framlagið hérlendis töluvert, úr 2,5 prósentum af landsframleiðslu árið 2007 niður í 1,7 prósent árið 2013. Á sama tíma voru útgjöldin á hinum Norðurlöndunum nokkuð stöðug, en þar hafa þau að meðaltali verið 2,8 prósent af landsframleiðslu á síðustu 13 árum.
Útgjöldin í málaflokknum hérlendis í fyrra eru því bæði undir meðaltali hinna Norðurlandanna og undir meðalútgjöldum hérlendis á árunum fyrir hrun, ef þau eru mæld sem hlutfall af landsframleiðslu.
Haldið uppi af fyrirtækjum
Samkvæmt tölum Hagstofu standa fyrirtæki að baki 80 prósent af útgjaldaaukningunni frá árinu 2013, en þau hafa aukið árleg útgjöldin sín í málaflokknum um 30 milljarða króna. Á sama tíma hafa árleg útgjöld háskólastofnana aukist um 8 milljarða króna, en aukningin hefur einungis numið 179 milljónum króna hjá öðrum opinberum stofnunum.
Ef tekið er tillit til hagvaxtar hefur framlag háskóla og annarra opinberra stofnana til nýsköpunar nokkurn veginn staðið í stað á síðustu árum, en samanlagt hafa þau verið á bilinu 0,7 til 0,8 prósent af landsframleiðslu. Á sama tíma hafa fyrirtæki næstum því tvöfaldað sitt hlutfall, úr 0,9 prósentum upp í 1,7 prósent af landsframleiðslu.