Heildarútgjöld hins opinbera í barnabætur nema tæplega 14 milljörðum króna, en það er 11 prósentum minna en útgjöldin sem runnu í málaflokkinn í fyrra. Þetta kemur fram í nýbirtu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.
Minna greitt út þrátt fyrir hækkun greiðslna á mann
Í kynningu sinni á fjárlagafrumvarpinu fyrr í dag sagðist Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ætla að leggja til að greiðslur hvers og eins bótaþega verði hækkaðar á næsta ári, auk þess sem tekjuskerðingarmörkin verði hærri. Gangi þessar breytingar í gegn fengi einstætt foreldri með 375 þúsund á mánuði í launatekjur rúmar 82 þúsund króna á mánuði í barnabætur, í stað rúmra 75 þúsunda króna sem það fengi miðað við núverandi kerfi.
Þrátt fyrir þessar breytingar er ekki búist við að ríkissjóður muni verja meiri fjármunum í málaflokkinn, en gert er ráð fyrir að heildargreiðsla barnabóta muni nema 13,965 milljörðum króna á næsta ári. Þetta er nákvæmlega sama upphæð og var sett í málaflokkinn í ár, samkvæmt núgildandi fjárlögum.
Samkvæmt tekjuáætlun ríkisstjórnarinnar er hins vegar búist við að ríkissjóður muni alls greiða rúma 15 milljarða króna í barnabætur í ár, en heildargreiðslurnar námu 15,8 milljörðum króna í ár. Verði barnabótagreiðslurnar á næsta ári því í samræmi við fjárlagafrumvarpið munu þær því verða 11 prósentum lægri en þær voru árið 2020.