Tvær áætlanir sem tengjast losun fjármagnshafta voru kynntar fyrir samráðsnefnd stjórnmálaflokkanna um afnám hafta í hádeginu í dag, samkvæmt heimildum Kjarnans. Önnur áætlunin snýst um að knýja eigendur aflandskróna til að skipta eignum sínum yfir í skuldabréf til meira en 30 ára og hin snýst um flatan útgönguskatt á allar eignir sem vilja yfirgefa íslenska hagkerfið. Slíkur skattur myndi leggjast jafnt á innlendar sem erlendar eignir.
Á fund samráðsnefndarinnar komu Glenn Kim, formaður framkvæmdastjórnar um losun fjármagnshafta, og Lee Buchheit, fyrir hönd lögfræðistofunnar Cleary Gottlieb Steen & Hamilton, sem er einn helsti ráðgjafi stjórnvalda.
Útgönguskattur á alla
Önnur kallast Project Slack og snýst um að láta eigendur aflandskróna, sem í dag eru um 300 milljarðar króna, skipta krónueignum sínum yfir í skuldabréf í erlendum myntum til meira en 30 ára á afslætti. Morgunblaðið hefur sagt frá tilurð þessarrar áætlunar áður.
Það þýðir líka að allir íslenskir aðilar sem vilja fara út úr höftum með fé, skipta krónum í gjaldeyri, þurfa að greiða útgönguskattinn líka.
Hitt sem var kynnt fyrir nefndinni var hugmynd um flatan útgönguskatt á allar eignir sem vildu fara út fyrir höft. Það þýðir að skatturinn myndi leggjast á bæði innlendar og erlendar eignir þrotabúa Glitnis, Kaupþings og Landsbankans. Það þýðir líka að allir íslenskir aðilar sem vilja fara út úr höftum með fé, skipta krónum í gjaldeyri, þurfa að greiða útgönguskattinn líka. Á meðal þeirra sem hefðu áhuga á að komast út hratt eru íslenskir lífeyrissjóðir. Þeir þyrftu þá að borga umræddan skatt ef þeir vildu komast út úr höftunum.
Þeir Kim og Buchheit ræddu hins vegar ekkert um hversu hár útgönguskatturinn ætti að vera, samkvæmt heimildum Kjarnans. Morgunblaðið hefur sagt að hann eigi að vera 35 prósent og Bloomberg-fréttaveitan sagði í frétt fyrr í dag að rætt hefði verið um að skatturinn yrði 20-45 prósent. Á fundinum kom hins vegar skýrt fram að markmið tillagnanna væri ekki að afla tekna fyrir íslenska ríkið, heldur að afnema fjármagnshöft. Það þýði samt ekki að ríkið geti ekki hagnast mjög á aðgerðunum, enda stærð þrotabúa föllnu bankanna um tvö þúsund milljarðar króna.
Hitta slitastjórnirnar á morgun
Kim og Buhcheit hitta síðan slitastjórnir Glitnis, Kaupþings og Landsbankans allar saman á fundi á Grand hótel klukkan 14 á morgun. Í bréfi sem var sent til slitastjórnanna kom fram að þær ættu að kynna afstöðu sína til þeirra skilyrða sem stjórnvöld setja fyrir veitingu undanþága frá fjármagnshöftum, sem er forsenda þess að hægt verði að klára nauðasamninga búanna og slíta þeim.
Samkvæmt heimildum Kjarnans sögðu mennirnir tveir við samráðsnefndina í dag að tilgangur fundarins væri að hlusta á kröfuhafa föllnu bankanna og þær hugmyndir sem þeir hefðu um lausn á sínum málum. Þeir hefðu enda ítrekað sagt að nóg væri af lausnum á vandamálinu. Ekki stæði til að kynna þeim nein skilyrði.