Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir það augljóst að þeir sem sömdu um lágar launahækkanir síðast, á grundvelli stöðugleika, telji sig eiga inni leiðréttingu gagnvart "því sem síðar gerðist". Þar vísar Gyfi í launahækkanir stétta eins og kennara og lækna, sem fengu mun hærri launahækkanir en flestar aðrar stéttir höfðu samið um. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Gylfi var líka gestur Sigurjóns M. Egilssonar í útvarpsþættinum Sprengisandi í gær. Þar sagði hann að útilokað væri að ná þjóðarsátt um stöðugleika og hóflegar launahækkanir á meðan að ríkisstjórnin hamaðist á velferðarkerfinu.
Ríkisstjórnarinnar að skapa þjóðarsátt
Í samtali við Morgunblaðið sagði Gylfi það fyrst og fremst í höndum ríkisstjórnarinnar að búa til aðstæður þar sem þjóðarsátt gæti skapast. Til þess að hægt yrði að gera almenna kjarasamninga á Íslandi sem stæðust samanburð við kjarasamninga launafólks annars staðar á Norðurlöndum þyrfti æði margt að gerast, t.d. meiri tekjujöfnun í gegnum skattkerfið, sem sé mun minni hérlendis en í nágrannalöndunum. Lækka þyrfti skattbyrði á launalága og tekju- og efnameiri þyrftu að leggja meira til samfélagsins.
Auk þess þyrfti að endurskoða gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu, krefjast aðgerða í húsnæðismálum og koma í veg fyrir að niðurskurður í menntakerfinu kæmi illa við launafólk sem þyrfti á endurmenntun vegna breyttra aðstæðna á vinnumarkaði.
Gylfi segist aldrei hafa velkst í vafa um að það sé á forræði ríkisstjórnarinnar að afgreiða þessi mál. "Hún fékk í meðgjöf vilja vinnumarkaðarins, bæði atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar, til að vinna með henni. Ríkisstjórnin hefur spilað þannig úr málum að bæði samtök atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar hafa sagt: Þetta gengur ekki. Stefna ríkisstjórnarinnar er ekki í neinu samhengi við að hér sé hægt að þroska og fóstra einhvern stöðugleika."