Borgarstjórn Reykjavíkurborgar mun á fundi sínum í dag taka afstöðu til hagræðingaraðgerða sem grípa á til vegna hallareksturs borgarinnar og má búast við að síðari umræða um fjárhagsáætlun borgarinnar standi fram á kvöld.
Samkvæmt því sem kom fram í ræðu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra við upphaf borgarstjórnarfundarins er útlit fyrir að fátt sem minnihluti borgarstjórnar lagði til verði samþykkt á fundinum, en borgarstjórinn fór í ræðu sinni lið fyrir lið yfir allar þær breytingatillögur sem flokkarnir í minnihlutanum lögðu fram.
Þeim verður nær öllum hafnað, ef meirihlutinn fer að tillögum borgarstjóra við atkvæðagreiðslur síðar í dag.
Að sama skapi mælti borgarstjórinn með því að nær allar þær 92 breytingatillögur sem borgarstjórnarmeirihlutinn lagði fram í síðustu viku yrðu samþykktar í óbreyttri mynd, en sumar þeirra hafa verið harðlega gagnrýndar, ekki síst þær sem snerta þjónustu við börn og ungmenni, eins og til dæmis vænt lokun Sigluness í Nauthólsvík.
Þó hefur komið fram að til standi að endurskoða þá ákvörðun, en tillögunni var mótmælt í sal borgarstjórnar fyrir borgarstjórnarfund dagsins.
Til í að selja sumarbústað borgarstjórnar en fátt annað frá Sjálfstæðisflokki
Sjálfstæðisflokkurinn setti fram ýmsar tillögur sem flokkurinn taldi að gæti í heildina sparað borginni um 7 milljarða króna á næsta ári. Borgarstjóri sagðist leggja til að þær yrðu nær allar felldar.
Á meðal þess sem sjálfstæðismenn lögðu til var að dregið yrði saman á þróunar- og nýsköpunarsviði borgarinnar, fjárfestingum í umbreytingu Grófarhúss yrði frestað og að fjárfestingum í breytingum á svæðinu umhverfis Hlemm yrði frestað.
Einnig vildi Sjálfstæðisflokkurinn fela utanaðkomandi ráðgjöfum að rýna í rekstur borgarinnar, framkvæma stjórnkerfisúttekt og skila tillögum að 5 prósenta niðurskurði á launum og launatengdum gjöldum fyrir 1. mars 2023. Borgarstjóri lagði til að þessi tillaga yrði felld, rétt eins og aðrar hagræðingartillögur í stjórnsýslunni sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði til að ráðist yrði í.
Borgarstjóri lagði hins vegar til að tillögum Sjálfstæðisflokksins um tekjuaukandi aðgerðir, með fjölgun lóðaúthlutana undir fjölbreyttar gerðir íbúðarhúsnæðis og fjölbreytta atvinnustarfsemi, yrði vísað frá þar sem fjölgun lóðaúthlutana væri þegar á áætlun borgarinnar.
Sjálfstæðisflokkurinn lagði einnig til eignasölu, að Ljósleiðarinn ehf. yrði seldur og að sumarhús sem borgarstjórn á yrði selt. Dagur lagði til að samþykkt yrði að sumarhús borgarstjórnar yrði selt, en lagði til að tillaga um sölu Ljósleiðarans yrði felld. Borgarstjóri sagði að fróðlegt yrði að heyra rökstuðning sjálfstæðismanna fyrir því að væru frábærar aðstæður fyrir hendi á markaði til þess að selja Ljósleiðarann.
Sjálfstæðisflokkurinn lagði einnig til að rekstur allra bílastæðahúsa Reykjavíkurborgar yrði boðinn út og sagðist Dagur mæla með því að þeirri tillögu yrði vísað inn í hóp sem þegar er að störfum um bættan rekstur bílastæðahúsa borgarinnar.
Eins manns borgarstjórnarflokkur Vinstri grænna lagði fram nokkrar breytingatillögur, og lagði borgarstjóri til að þær yrðu allar felldar nema ein. Það er tillaga um að borgin selji alla bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti og skipti út flotanum fyrir umhverfisvænni og sparneytnari bíla. Borgarstjóri sagðist leggja til að eignaskrifstofu borgarinnar yrði falið að skoða þessa tillögu nánar.
Borgarfulltrúar Sósíalistalistaflokksins lögðu til átta tillögur og lagði borgarstjóri til að þær yrðu allar felldar, en benti þó á að ein tillaga flokksins, um að fá meira fé frá ríkinu vegna NPA-samninga, hefði verið í kröfugerð borgarinnar á hendur ríkinu og væri líklega að nást í gegn í yfirstandandi fjárlagavinnu yfir á Alþingi.
Sósíalistaflokkurinn lagði einnig til að vísitölutenging húsaleigu hjá Félagsbústöðum yrði afnumin og sagði borgarstjóri að hann skildi ekki að þessi tillaga kæmi frá Sósíalistaflokknum, þar sem þessi aðgerð „myndi grafa mjög hratt undan félaginu“.
Borgarstjóri lagði svo til að allar sautján tillögurnar sem bárust frá Flokki fólksins yrðu felldar.