Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins gerði kaup Síldarvinnslunnar á jörðinni Fannardal í Norðfirði að umtalsefni undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
Hann benti á að áformað væri að nýta jörðina til skógræktar til að binda kolefni móti kolefnislosun sem starfsemi fyrirtækisins veldur.
„Stefnan er að hin fyrirhugaða skógrækt í landi Fannardals verði framkvæmd í samvinnu við Skógrækt ríkisins. Verkefnið á að fullnægja öllum kröfum loftslagsráðs um vottun og á ræktunin að vera hæf til skráningar í Loftslagsskrá Íslands samkvæmt vef fyrirtækisins. Það er ánægjulegt að fyrirtækið hugi markvisst að verkefnum á sviði umhverfismála,“ sagði hann.
Ásmundur bætti því hins vegar við að hér væri tækifæri útgerðarinnar að styðja við bakið á landbúnaði í landinu með því að fela bændum að taka að sér skógrækt fyrir útgerðina í stað þess að útgerðin færi að stunda landbúnað í formi skógræktar.
„Fer ekki vel á því að útgerðin geri það sem hún er best í, að veiða fisk, og bændur sjái um landbúnaðinn og skógræktina sem þeir eru betri í en útgerðin? Samstarf um smávirkjanir gæti líka gagnast báðum aðilum. Ég sé þarna tilvalið tækifæri fyrir tímamótasamvinnu útgerðar og bænda og að gamalt orð fái nýja merkingu; útvegsbændur virkja saman skóg.“
Ætti að lýsa yfir neyðarástandi í „aðgerðaleysi á uppbyggingu flutningskerfis raforku“
Að endingu benti þingmaðurinn á að Síldarvinnslan og fleiri fyrirtæki hefðu farið í rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja og sett upp raflandtengibúnað fyrir fiskiskip sem væru sparneytnari en áður og minnkuðu olíunotkun.
„En öll þessi viðleitni til að nýta raforku og bera ábyrgð á loftslagsmálum er stöðvuð af Alþingi sem kemur í veg fyrir endurnýjun flutningskerfis raforku og raforkuskortur eykur aðeins á olíunotkun. Nú er svo komið að allur ávinningur af milljarða framlögum ríkisins til að rafvæða bílaflotann hverfur þessa dagana út í andrúmsloftið með olíureyknum,“ sagði hann.
Spurði hann jafnframt hvort ekki væri kominn tími til að lýsa yfir neyðarástandi í aðgerðaleysi á uppbyggingu flutningskerfis raforku og mæta orkuskiptum með meiri framleiðslu raforku.