Í síðasta Kjarnanum var sagt frá því að ýmsir aðilar hefðu fengið arðbær verkefni tengd skuldaniðurfellingu ríkisstjórnarinnar án útboðs. Það er þó ekki einungis ríkisstjórnin sem hefur valið aðila til að sinna verkefnum fyrir sig án útboðs á undanförnum misserum. Eignasafn Seðlabanka Íslands, dótturfélag Seðlabankans sem heldur utan um eignir sem hann eignaðist eftir hrunið, tilkynnti í desember síðastliðnum að það ætlaði sér að hefja sölu á verðtryggðum skuldabréfum fyrir rúmlega 100 milljarða króna. Selja á skuldabréfin í áföngum á næstu fimm árum.
Um er að ræða sértryggð skuldabréf sem upphaflega voru gefin út af Kaupþingi en síðar yfirtekin af Arion banka. Þau eru verðtryggð með föstum vöxtum. Arion banki ætlaði sér upphaflega sjálfur að skrá bréfin á markað en af einhverjum ástæðum tókst það ekki. Þei mvar því skilað til ESÍ sem þurfti að „pakka pakkanum“.
Það verður gert með því að stofna félög eða fagfjárfestingasjóði og leggja þeim til eign með umræddum bréfum. Þau munu síðan gefa út bréf til ESÍ sem verða skráð í Kauphöllinni. Þau bréf verða síðan seld á næstu fimm árum og gert er ráð fyrir að fyrsta salan muni eiga sér stað fyrir næstu mánaðarmót.
Summa ráðin
ESÍ réð félag sem heitir Summa Rekstrarfélag til þess að annast stýringu eigna félaganna sem verða stofnuð og við „önnur tengd verkefni“. Fyrir það mun Summa þiggja þóknun sem ekki liggur fyrir hversu há verður. Það mun fara eftir hvaða verð fæst fyrir umrædd bréf en ljóst að hún verður umtalsverð, enda áætlað virði þeirra yfir 100 milljarðar króna.
Verkefnið var ekki boðið út og Summa í raun handvalin til þess að sinna því vegna sérþekkingar starfsmanna fyrirtækisins á þeim sértryggðu skuldabréfum sem til stendur að selja. Hjá Summu starfa nefnilega fjórir menn sem allir gengdu háum stöðum í Kaupþingi fyrir bankahrun. Þeir heita Sigurgeir Tryggvason, Haraldur Óskar Haraldsson, Hrafnkell Kárason og Ómar Örn Tryggvason. Mennirnir fjórir eiga líka 34 prósent hlut í Summu á móti Íslandsbanka. Þeir réðu sig allir til félagsins í fyrra og eignuðust samtímis hlut í því. Þá var nafni félagsins líka breytt úr rekstrarfélagi Byrs í Summu rekstrarfélag.
Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri ESÍ, sem réð Summu til verksins starfaði einnig í Kaupþingi með mönnunum fjórum á árunum 2006 til 2008.