Viðspyrnuaðgerðir ríkisstjórnarinnar í kjölfar kórónuveirufaraldursins eru ekki ástæða þess að skuldir hins opinbera muni aukast til ársins 2025. Frekar er það kerfislægur halli á rekstri ríkissjóðs, sem er að hluta til tilkominn vegna tilhneigingar stjórnvalda til að verja öllum tekjum hins opinbera jafnóðum. Þetta kemur fram í nýjasta áliti fjármálaráðs á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem birtist í síðasta mánuði.
„Froða“ vegna hagsveiflna og verðbólgu
Það kveður við hvassari tón í áliti ráðsins ef miðað er við fyrri útgáfur þeirra, um leið og skipunartíma ráðsmanna er að ljúka. Það segir að einn vandi hinna opinberu fjármála sé sá að stjórnvöld setji sér lágmarksmarkmið í afkomu ríkissjóðs fram í tímann, afkomu sem síðar getur tekið miklum breytingum með hagsveiflum.
Í uppsveiflum er þessum lágmarksmarkmiðum að öðru óbreyttu auðveldlega mætt, en þá aukast gjarnan skatttekjur ríkissjóðs samhliða meiri efnahagsumsvifum, auk þess sem ýmis velferðarútgjöld, líkt og atvinnuleysisbótagreiðslur, minnka. Sömuleiðis getur afkoman versnað í tímabundinni niðursveiflu, þar sem samdráttur í hagkerfinu leiðir til minni skatttekna og aukið atvinnuleysi leiðir til meiri útgjalda.
Í slíku umhverfi segir ráðið að stjórnvöld standi almennt frammi fyrir þeim freistnivanda að ráðstafa þeim afgangi sem hlýst af rekstri ríkisins umfram afkomumarkmiðin í uppsveiflum og auka ríkisútgjöld. Þennan afgang, sem hverfur um leið og hagkerfið kólnar, kallar fjármálaráð „froðu“ sem ekki ætti að eyða í varanlega útgjaldaaukningu.
„Að fallast í slíka freistni býr til undirliggjandi afkomuvanda en um leið er vandanum slegið á frest og lendir á endanum í fanginu á þeim sem taka við verkefninu síðar,“ segir í álitinu. Að áliti fjármálaráðs hafi þetta m.a. verið ástæða þess að undirliggjandi afkoma hins opinbera var neikvæð um 2,2% af landsframleiðslu í aðdraganda faraldursins 2019. Verkefnið fram undan sé að vinda ofan af þessum vanda. Við enda núverandi áætlunartímabils gerir fjármálaáætlun ráð fyrir að undirliggjandi halli verði enn til staðar enda þótt hann hafi minnkað.
Til þess að hægt sé að koma í veg fyrir framangreindan freistnivanda segir ráðið að huga þurfi að nýjum meðulum í umgjörð stefnumörkunar hins opinbera sem snúi að því að láta afkomumarkmiðin taka betur mið af hagsveiflum í uppsveiflum. Þannig verði stjórnvöld sett takmörk í að eyða „froðunni“ sem myndast þegar vel árar.
Ráðið bætir líka við að afkoma hins opinbera geti aukist tímabundið vegna verðbólgu eins og nú er raunin, þar sem áhrif verðhækkana koma fyrr fram á tekjuhlið heldur en í útgjöldum. Slíka aukningu kallar ráðið „verðbólgufroðu,“ sem geti rýrt undirliggjandi afkomu ef henni er eytt jafnóðum. Þá kunni það heldur ekki góðri lukku að stýra að nota froðuna sem lausn til að lækka þörfina á varanlegum afkomubætandi ráðstöfunum eftir faraldurinn. Slíkt geti reynst skammgóður vermir. Mikilvægt sé að greina hversu stór hluti endurmetinna tekna sem nú hafa birst grundvallist á aukinni verðbólgu, að mati ráðsins.
Þörf á meiri festu í langtímaáætlunum
Til viðbótar við þennan freistnivanda sem ráðið segir að sé til staðar í opinberum fjármálum eru einnig athugasemdir gerðar við að í hverri nýrri fjármálaáætlun, sem er ætlað að uppfylla stefnumið fjármálastefnu stjórnvalda fyrir næstu fimm árin, breytist iðulega áætlanir fram í tímann umtalsvert eftir breyttum hagspám. Fortíðin sýni að áliti ráðsins að hagspárnar rætist sjaldan. Stefnumörkun sem grundvallast á hagspám sem lítt rætast skapi vandamál sveiflukenndra útgjalda við óvæntar sveiflukenndar tekjur að áliti ráðsins. Vandi hagspánna er samkvæmt þessu til þess fallinn að auka freistnivanda stjórnvalda.
„Þegar veðurspár rætast sjaldan þarf að huga að því hvað eru ríkjandi vindáttir,“ segir fjármálaráð. Í því samhengi mætti líta til þess að setja fremur markmið um tekjur og gjöld en afkomu. Um leið mætti huga að því að miða útgjaldavöxtinn við langtímaleitni vaxtarins í efnahagslífinu. Þannig væri hægt að koma í veg fyrir hinn almenna freistnivanda stjórnvalda að ráðstafa í of ríkum mæli tímabundnum tekjum góðæris. Slíkt gæti unnið gegn þeim langlífa vanda opinberu fjármálanna að eyða öllu sem kemur í kassann sem oft hafi leitt til lausungar í fjármálastjórnun opinberra fjármála.