Bæjaryfirvöld í Hróarskeldu í Danmörku vörðu hátt í milljón danskra króna í ferðalag og uppihald sautján ára vandræðaunglings í Karabíska hafinu, eftir að hann hlaut dóm fyrir vopnað rán. Dagblaðið Metroxpress greinir frá málinu.
Unglingurinn, sem nefndur er Christian í umfjöllun Metroxpress, framdi rán í 7-Eleven verslun í Hróarskeldu árið 2009, íklæddur lambúshettu og vopnaður stórum grillhníf. „Í fjölskyldunni minni eru eintómir glæpamenn, þannig að ég varð það bara líka,“ hefur dagblaðið eftir Christian. „Ég byrjaði í afbrotum þegar ég var tólf til þrettán ára, þannig að ránið í 7-Eleven var bara enn einn glæpurinn.“
Christian var dæmdur til að undirgangast áfengis- og fíkniefnameðferð eftir ránið, en í stað þess að senda hann á til þess bæra meðferðarstofnun, ákváðu bæjaryfirvöld í Hróarskeldu að senda síbrotaunglinginn í Karabíska hafið á gamla snekkju. Á snekkjunni hafa vandræðaunglingar dvalist til lengri og skemmri tíma í óhefðbundinni meðferð.
Óforbetranlegur glæpamaður á leið í sólina
„Ég hélt alltaf áfram að brjóta af mér þrátt fyrir að hljóta dóma fyrir afbrotin, og svo kom ég mér líka oftast undan því að taka út mína refsingu. Svo þegar lögmaðurinn minn og félagsráðgjafi stungu upp á þessu nýja úrræði tók dómarinn vel í þá hugmynd,“ segir Christian.
Því næst keyptu bæjaryfirvöld í Hróarskeldu undir Christian flugmiða í Karabíska hafið, þar sem hann dvaldist í eitt ár. Kostnaður bæjarfélagsins vegna ferðar hans og dvalar þar nemur hátt í 976 þúsund danskra króna, eða tæpum 19,5 milljónum íslenskra króna.
Hér má sjá Christian svamla í Karabíska hafinu skammt frá snekkjunni góðu.
„Þetta var virkilega skemmtilegt, og þá sérstaklega að fá að sjá þennan hluta heimsins. En þetta var auðvitað ekki bara sældarlíf. Við sátum á skólabekk frá klukkan átta á morgnana og fram að hádegi, og þá tók vinna á bátnum við. En ég naut lífsins.“
Christian kveðst hafa skilning á furðu margra yfir því að svo miklum skattpeningum hafi verið varið til að senda einn ræningja í Karabíska hafið til afplánunar. Þá bítur höfuðið af skömminni að ferðin í suðrænu höfin hefur ekki snúið Christian frá villu síns vegar. „Túrinn fékk mig því miður ekki til að hætta afbrotum,“ segir hann í samtali við Metroxpress. „Þegar ég kom heim ákvað bærinn að senda mig rakleiðis aftur í mitt gamla umhverfi, sem gerði mér ekki gott. Ég byrjaði fljótlega að selja hass og er nú meðlimur AK81,“ sem er stuðningsklúbbur glæpasamtaka Vítisengla.
Bæjaryfirvöld í Hróarskeldu hafa ítrekað neitað Metroxpress um viðtal vegna málsins.