Vanhugsuð og illa undirbúin vegferð

ol.a.jpg
Auglýsing

Vorið 2006 samþykkti ríkisstjórn Íslands, að tillögu þáverandi iðnaðarráðherra Valgerðar Sverrisdóttur, að hefja undirbúning fyrir útgáfu leyfa til rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á norðanverðu Drekasvæðinu við Jan Mayen-hrygginn. Síðan þá hafa íslensk stjórnvöld gefið út þrjú sérleyfi fyrir rannsóknir og olíu- og gasvinnslu á svæðinu, nú síðast í janúar á þessu ári.

Margir sjá gríðarleg tækifæri fyrir land og þjóð í kjölfar olíu- og gasvinnslu á Drekasvæðinu en aðrir gjalda varhug við fyrirhugaðum framkvæmdum á svæðinu. Bæði er það af ótta við stórt umhverfisslys og svo þykir mörgum olían vera orkugjafi gærdagsins.

Sex nemendur á félagsvísindasviði Háskólans á Bifröst unnu nýverið misserisverkefni undir yfirskriftinni: „Íslensk olíuvinnsla: Hver yrðu möguleg umhverfisáhrif við Ísland ef olíuslys, á borð við Exxon Valdez, yrði innan íslenskrar landhelgi?“ Í verkefni sexmenninganna var rýnt í olíuslysið sem varð við strönd Alaska árið 1989, hvaða beinu og óbeinu umhverfisáhrif urðu þar og þau heimfærð yfir á íslenskar aðstæður. Hér á eftir verður stiklað á stóru um niður­stöður sexmenninganna, sem eru þær helstar að miklum fjármunum hafi verið varið í mögulega olíuvinnslu á Drekasvæðinu án þess að lífríki og umhverfi svæðisins hafi verið rannsakað í þaula.''

Auglýsing

almennt_22_05_2014

Áhrifa Exxon Valdez-slyssins gætir enn


Hinn 24. mars árið 1989 strandaði olíuflutningaskipið Exxon Valdez á skeri í Prince William-sundi úti fyrir ströndum Alaska. Í tönkum skipsins var tæplega 201 milljón lítra af hráolíu og lak 41 milljón lítra í hafið. Orsök slyssins má ekki síst rekja til mannlegra mistaka en auk þess var eftirliti stjórnvalda ábótavant.
Árið 2000 fóru 128 innlend og erlend olíuflutningaskip um siglingarleiðir sunnan Íslands, með um 800 þúsund tonn af olíu innanborðs. Um áttatíu olíuflutningaskip flytja olíu til Íslands á ári hverju með um þrjátíu þúsund tonn af olíu hvert. Auk þess sigla um þúsund vöruflutningaskip með um fimmtán hundruð tonn af eldsneytisolíu hvert til landsins. Hefjist olíuframleiðsla á Drekasvæðinu er viðbúið að þessi fjöldi muni margfaldast.

Exxon-olíufyrirtækið var dæmt til að greiða fimm milljarða Bandaríkjadala í skaðabætur í kjölfar slyssins en eftir röð áfrýjana var sú upphæð lækkuð í 507 milljónir dala.
Olían sem fór í hafið í slysinu hafði gríðarleg umhverfisáhrif á svæðinu. Alls urðu um ríflega tvö þúsund kílómetrar af strandlengjunni fyrir beinum umhverfisáhrifum, sem raskaði lífríki svæðisins verulega. Vegalengdin sem um ræðir er álíka og frá Húsavík austur til Víkur í Mýrdal. Fiskistofnar, fuglar og spendýr urðu illa úti, talsverð rýrnun varð á ýmsum dýrastofnum, til að mynda laxastofni svæðisins. Þá er talið að um 250 þúsund langvíur hafi drepist í kjölfar slyssins.

Slysið hafði ekki aðeins bein umhverfisáhrif heldur einnig óbein áhrif á atvinnuvegi og íbúa svæðisins. Atvinnuvegirnir samanstóðu helst af fiskveiðum og ferðaþjónustu. Árið 1989 tók gildi víðtækt bann við fiskveiðum á Prince William-sundi og nærliggjandi svæðum vegna olíumengunar. Tekjutap vegna þessa var gríðarlegt, en áhrifa slyssins á fiskveiðar gætir enn á svæðinu. Síldarstofninn á svæðinu hefur ekki náð sér á strik síðan og því eru síldveiðar þar enn í algjöru lágmarki.

Ferðaþjónusta á svæðinu beið töluverðan skaða, þar sem straumur ferðamanna dróst verulega saman eftir slysið. Ímynd svæðisins sem ósnortin náttúruperla beið verulegan hnekki, en talið er að fjárhagslegt tap vegna þessa hafi numið um 2,8 milljörðum dala.

Rannsóknum á lífríki Drekasvæðisins ábótavant


Í áliti Náttúrufræðistofnunar, sem unnið var að beiðni Umhverfisráðuneytisins, að rannsóknum á lífríki Drekasvæðisins sé ábótavant. Í álitinu bendir stofnunin á mikilvægi þess að íslenska ríkið leggist í nauðsynlegar rannsóknir sem til þurfi til að gera sér grein fyrir þeim skaða sem hlitist getur af olíuleit og olíuvinnslu.
Ef olíuslys verður innan íslensku lögsögunnar skiptir veðurfar, hafstraumar, sjávarfalla- og vindstraumar verulegu máli svo hægt sé að spá fyrir um afdrif og bein umhverfisáhrif af völdum olíunnar. Upplýsingar um veðurfar á Drekasvæðinu eru af skornum skammti og að mestu fengnar með óbeinum mælingum frá landi sem gefa ansi óljósa mynd af veðri, sjávarhita, sjólagi og hafís á svæðinu.

Á Norðurlandi eru þrír stórir uppsjávarstofnar; loðna, síld og kolmunni. Loðnan og síldin fara líklega um Drekasvæðið þar sem olíuleit og vinnsla er fyrirhuguð, og þá eru fjölbreyttir hvalastofnar á svæðinu við Jan Mayen ásamt fjölbreytilegu lífríki á hafsbotni. Þá er þar að finna seli og hvítabirni.

Gulf-Oil-Spill

Loðnan hélt sig nærri Jan Mayen á níunda áratugnum. Á þeim tíma var hún veidd þar sem nú eru uppi áform um olíuvinnslu. Margt bendir til að útbreiðsla og göngur loðnunnar hafi breyst og hún haldi sig nú nær vesturhluta Íslandshafs og í Grænlandssundi, fjarri olíuleitarsvæðinu. Ómögulegt er að segja til um hvort þessi ganga og útbreiðsla hennar sé varanleg og allt eins líklegt er að stofninn færi sig aftur á Drekasvæðið og þá hefur norsk-íslenski síldarstofnin um árabil haldið sig nálægt olíuleitarsvæðinu við Jan Mayen.
Telja má að fjölskrúðugt fuglalíf finnist á Drekasvæðinu. Þar eru margar sjófuglategundir sem yrðu í hættu ef mengunar­slys af völdum olíu yrði á svæðinu. Miðað við rannsóknir eru algengustu fuglategundirnar sem halda sig á fyrirhuguðu olíuleitarsvæði: rita, fýll, stuttnefja, langvía, álka, lundi og haftyrðill. Þetta eru með allra algengustu sjófuglategundum í Norður-Atlantshafi.

Ísland hvergi nærri tilbúið undir stórt olíuslys


Náttúrufræðistofnun hefur lagt ríka áherslu á að stjórnvöld kortleggi hvaða þætti þurfi að hafa í huga í ljósi fyrir­hugaðrar olíuvinnslu, eins og áður segir. Þætti eins og lífríki, vind- og hafstrauma og samspil mismunandi umhverfisþátta, sérstaklega með tilliti til mengunarslysa. Sökum kulda og viðkvæms lífríkis á norðurslóðum geta mengunarslys þar haft mjög alvarleg áhrif. Kuldi hægir á uppgufun olíunnar og hægir á niðurbrotsferli hennar.

Á Íslandi eru engar viðbragðsáætlanir til til að takast á við stórt olíuslys. Til að mynda er ekkert íslenskt skip sem getur dregið hundrað þúsund tonna olíuflutningaskip, strandi það eða bili við strendur Íslands. Sá búnaður sem Umhverfisstofnun býr yfir er eingöngu fyrir lítil eða meðalstór olíuslys sem verða nærri landi. Ísland er þannig hvergi nándar nærri tilbúið að takast á við stór slys á hafi úti og myndi þá neyðast til að leita sér utanaðkomandi aðstoðar, til að mynda frá Norðurlöndunum eða Evrópusambandinu. Það mun valda því að viðbraðstíminn verður langur og útbreiðsla og áhrif olíuleka gætu orðið mikil.

Áhrifa olíuslyss myndi gæta víða


Eins og áður segir er viðbúið að umferð olíuflutningaskipa muni margfaldast samhliða olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Ljóst er að olíuslys, sambærilegt við Exxon Valdez-slysið, myndi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir helstu fiskistofna landsins og lífríkið. Við suður- og suðvesturströnd landsins eru til að mynda margar mikilvægar hrygningarstöðvar fiskistofna, og má þar nefna ýsu, þorsk, loðnu, ufsa og síld. Ef olíuslys yrði á þessu svæði gæti það haft mikil áhrif á allt vistkerfi þessara stofna.

Grunnstoðir hagkerfisins byggja á farsælum og nýtan­legum fiskimiðum við landið og efnahagslögsaga Íslands býr yfir einum auðugustu fiskimiðum Norður-Atlantshafsins. Öll stórvægileg röskun á þessari auðlind myndi augljóslega hafa gríðarleg áhrif á íslenskt samfélag, bæði efnahags- og félagslega.

RETRO-EXXON-VALDEZ-USA-TUGBOATS

Árið 2012 var heildarútflutningur Íslendinga ríflega þúsund milljarðar króna. Þeir fiskistofnar sem væru í hvað mestri hættu eru tæplega sextán prósent af þessum út­flutningi. Ef fiskistofnarnir myndu skaðast er ófyrirséð hvort og hvenær þeir myndu ná sér aftur að fullu. Ljóst er að slíkt myndi hafa geigvænleg margfeldisáhrif á íslenskt samfélag og efnahag. Olíuslys gæti líka haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir fiskeldi við strendur Íslands og hvalveiðar.

Umhverfisslys á borð við Exxon Valdez-slysið myndi ekki síst hafa gríðarlegar afleiðingar á ferðaþjónustuna um ókomin ár. Ferðaþjónustan hér á landi er orðin stór atvinnugrein, eins og í Alaska fyrir olíuslysið. Olíuslys myndi sverta orðspor landsins, en óspillt náttúra er helsta söluvara íslenskrar ferðaþjónustu og skaðinn myndi helst bitna á ferðaþjónustufyrirtækjum sem reiða sig á heilbrigt sjávar- og dýralíf.

Möguleg umhverfisáhrif við Ísland í kjölfar umhverfisslys á borð við Exxon Valdez yrðu því bæði neikvæð og mikil, ekki síst vegna hættunnar á því að fiskistofnar, dýr og annað lífríki væri í mikilli hættu vegna mengunarinnar sem olíuslys geta haft í för með sér. Óbein áhrif slíks olíuslys eru ekki síður alvarleg, en áhrifin á sjávarútveginn og ferðaþjónustuna yrðu líklega þau verstu. Olíuslys í íslenskri landhelgi myndi því alltaf hafa slæm bein og óbein umhverfisáhrif, og tjón af völdum þess yrði seint bætt að fullu.

Sláandi hvað við erum illa undirbúin


Gunnar Jökull Karlsson segir sexmenninganna hafa ráðist í verkefnið vegna þess hve lítið möguleikinn á að hér verði olíuslys hafi verið ræddur. „Auk þess hafa orðið verulega slæm slys af þessu tagi að undanförnu, meðal annars á Mexíkóflóa og eins í Michigan-vatni í Bandaríkjunum. Okkur fannst sláandi hversu illa undirbúin við erum og hversu fáar rannsóknir hafa verið gerðar á lífríki Drekasvæðisins, þar sem olíuleitin fer fram. Okkur fannst það bera vott um skammsýni af hálfu stjórnvalda að gefa út leyfi til olíuleitar án þess að rannsaka þessa hluti betur,“ segir Gunnar Jökull.

Hann segir verkefni sexmenninganna hafa vakið viðbrögð víða. „Að vissu leyti kom það skemmtilega á óvart að viðbrögðin hafa verið jákvæð, en við bjuggumst jafnvel frekar við neikvæðum viðbrögðum, þar sem um er að ræða eitthvað sem hugsanlega gæti gefið vel í aðra hönd. Þetta gæti stafað af því að þetta sjónarhorn á olíuleitina hefur ekki verið skoðað að neinu ráði, heldur hefur frekar verið reynt að sýna fram á það að mögulegur olíugróði eigi eftir að gera okkur öll moldrík. Kannski höfum við verið að svara einhverri þörf eða eftirspurn með því að skoða þessi mál frá öðru sjónarhorni. Að okkar mati er það hið besta mál og vonandi verður þetta til þess að víkka umræðuna um olíu­ævintýrið enn frekar,“ segir Gunnar Jökull að lokum.

Fréttaskýringin birtist fyrst, með ítarefnum, í síðustu útgáfu Kjarnans. Hana má nálgast hér.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ljóð til styrktar Konukoti og Frú Ragnheiði
Safnar er fyrir ljóðabókinni „Skugga mæra – skjáskot af jaðrinum“ á Karolina Fund.
Kjarninn 13. júní 2021
Róbert Wessman er forstjóri Alvogen og Alvotech.
Alvotech tapaði ellefu milljörðum króna í fyrra
Lyfjafyrirtækið Alvotech dró verulega úr tapi sínu í fyrra með að nýta yfirfæranlegt skattalegt tap. Eiginfjárstaða félagsins batnaði mikið, aðallega vegna breytinga á skuldum við tengda aðila.
Kjarninn 13. júní 2021
Jón Ormur Halldórsson
Stóra skákin – Átökin í kringum Kína
Kjarninn 13. júní 2021
Vladímír Pútín, forseti Rússlands, tekur í höndina á Joe Biden, þáverandi varaforseta Bandaríkjanna, í Moskvu fyrir tíu árum síðan.
Af hverju vilja Rússar alltaf vera í vörn?
Bandaríkjamenn og Rússar reyna nú að koma samskiptum ríkjanna í samt lag. Rússnesk stjórnvöld hafa þó lítinn áhuga á því að Rússland verði lýðræðissamfélag eftir höfði Vesturlanda – styrkur þess liggi í að vera óútreiknanlegt herveldi.
Kjarninn 13. júní 2021
Pigekoret, stúlknakór danska ríkisútvarpsins, með núverandi kórstjóra.
Skuggar fortíðar í stúlknakórnum
Michael Bojesen, einn þekktasti hljómsveitarstjóri Danmerkur og núverandi forstjóri Malmö óperunnar er kominn í ótímabundið leyfi. Ástæðan er frásagnir stúlkna sem voru í Stúlknakór danska útvarpsins undir hans stjórn frá 2001 – 2010.
Kjarninn 13. júní 2021
Jón Gunnarsson og Bryndís Haraldsdóttir.
Jón og Bryndís í öðru og þriðja sæti
Jón Gunnarsson endaði í öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi og Bryndís Haraldsdóttir í því þriðja. 80 prósent kjósenda settu Bjarna Benediktsson í fyrsta sætið.
Kjarninn 13. júní 2021
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fékk 82 prósent atkvæða í fyrsta sætið í prófkjörinu, samkvæmt fyrstu tölum.
Bjarni, Jón og Bryndís efst samkvæmt fyrstu tölum
Kjörstöðum hefur nú verið lokað í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Bjarni Benediktsson, Jón Gunnarsson og Bryndís Haraldsdóttir skipa þrjú efstu sætin nú þegar tæpur þriðjungur atkvæða hefur verið talinn.
Kjarninn 12. júní 2021
Kári Árnason
Einkareknar forvarnir
Kjarninn 12. júní 2021
Meira úr sama flokkiInnlent
None