Vanskil og greiðslujöfnun eru greidd áður en leiðréttingarupphæð er ráðstafað inn á íbúðarlán fólks. Þetta staðfestir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri í samtali við Kjarnann.
Hvorki vanskil né greiðslujöfnun eru á meðal þeirra frádráttarliða sem birtast fólki þegar það sækir niðurstöðu leiðréttingarinnar. Þar eru einungis tilgreind önnur skuldaúrræði sem viðkomandi hefur fengið og dragast frá leiðréttingunni. Þeir sem eru í greiðlujöfnun eða vanskilum munu því ekki fá alla þá upphæð sem tilgreind er í ákvörðun leiðréttingar inn á íbúðalánið sitt. Fyrst eru vanskil og greiðslujöfnun greidd.
Skýr kröfuröð
Leiðrétting verður færð inn á íbúðalán á fyrsta veðrétti húsnæðis lántaka. Greiðsluröð verður í eftirfarandi röð; vanskil, áfallnir vextir, greiðslujöfnunarreikningur og loks höfuðstóll. Leiðréttingu sem ekki verður ráðstafað inn á íbúðalán, verður greitt út í formi sérstaks persónuafsláttar.