Fréttablaðið hefur farið mikinn í umfjöllun sinni um hvort Ólafur Ólafsson hafi verið ræddur í ákveðnu símtali sem skrifað er um í dómi Hæstaréttar í Al Thani-málinu svokallaða. Tónninn í umfjölluninni er sá að um sé að ræða svo vítarvert mál að það sé grundvöllur fyrir endurupptöku málsins.
Í forsíðufrétt blaðsins í gær, þar sem fyrirsögnin er „„Óli“ er ekki Ólafur Ólafsson“, er lagt út frá orðum Bjarnfreðar Ólafssonar, lögmanns sem ræddi um „Óla“ í símtalinu og sagðist ekki hafa verið að ræða Ólaf Ólafsson, heldur Ólaf Arinbjörn, lögmann sem sé sérfræðingur í kauphallarviðskiptum. Það hefði mögulega mátt fylgja með fréttinni að umræddur Bjarnfreður sat í stjórn Kaupþings þegar Al Thani-fléttan var hönnuð, kom að gerð hennar, veitti Ólafi Ólafssyni skattaráðgjöf og hefur verið dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir brot á hlutafélagalögum fyrir að hjálpa Lýð og Ágústi Guðmundssyni að halda meirihluta í einu stærsta hlutafélagi landsins með ólögmætum hætti. Bjarnfreður var auk þess sviptur lögmannsréttindum sínum í eitt ár, sem hann hefur nú fengið aftur.
Í dómi Hæstaréttar er líka vitnað í nokkur brot úr símtalinu þar sem augljóslega er verið að að ræða Ólaf Ólafsson. Á einum stað stendur til að mynda að Sjeik Mohammed bin Khalifa Al Thani ætlaði að taka „stöðu í bankanum...og á síðan félagið...50% á móti Ólafi... er eitthvað hætta á að við gertum sagt að það eru bein eignatengsl þarna á milli, af því þetta er afkomutengt“. Þar segir líka að Eggert Hilmarsson, sem var á hinum enda símtalsins við Bjarnfreð, segi: „já, sem það og er sko, af því að mér skilst að Ólafur náttúrulega á að fá sinn part í kökunni sko“.
Varla er það Ólafur Arinbjörn sem á að eiga félag 50 prósent á móti Al Thani eða sem á að „fá sinn part í kökunni sko“. Gæti misskilingurinn kannski verið fólgin í því að í símtalinu sé bæði rætt um Ólaf Ólafsson og Ólaf Arinbjörn?