„Kæru twitter vinir þetta skjáskot er að fara að birtast i fjölmiðlum vil taka fram að ég var ólofaður og ógiftur þegar þetta átti sér stað en svona er lifið engin veit sína æfi fyrr en öll er.“
Þetta skrifar Tómas A. Tómasson þingmaður Flokks fólksins á Twitter í dag.
Ástæðan er fréttaflutningur Vísis af skjáskoti frá manni sem ræðir við Tómas í skilaboðum árið 2014 sem hann birti á Facebook fyrr í mánuðinum en samkvæmt Vísi fylgdi þar spurning um það hvort manni sem sendi skilaboð af þessum toga væri sæmandi að vera þingmaður.
Í skilaboðunum frá Tómasi, sem er nýlentur í Bangkok, segir: „Ein dásamleg 26 ára ca. 45 kg var að yfirgefa herbergið smokklaust. En byrjaði á nuddkonunni fyrr í dag, kvöldið er ungt, 20.21.“
Sá sem svarar Tómasi segir: „Mikil öfund hérna. Var bara að enda við æfingu, það er það eina sem ég fæ.“
Tómas svarar: „Elsku karlinn laet þig vita thegar eg tek eina fyrir thig.“ Hann fær svarið: „Ok en ekki i einu.“
Þingmaðurinn segir í samtali við Vísi að hann hafi ekki greitt fyrir kynlíf í Taílandi sem vísað er til í smáskilaboðum sem hann sendi til kunningja síns árið 2014. „Ég hitti konu sem er yngri en ég, er það þá fréttaefni?“ spyr Tómas í samtali við Vísi. Hann segist ennfremur skilja að þetta hljómi ekki vel „í ákveðnu samhengi“ en spyr hvort ógiftur og ólofaður maður sem hittir einhverjar konur sé sekur.
Uppfært kl. 12:22. Hlekkur á tíst Tómasar var fjarlægður úr fréttinni, þar sem Tómas hefur eytt því af Twitter.