Stjórnvöld í Norður- og Suður-Kóreu munu í dag funda vegna ástandsins á landamærum ríkjanna, en hermenn sem gæta hlutlausa svæðisins við landamærin skiptust á skotum á fimmtudaginn.
Vaxandi spenna hefur verið þar undanfarna daga og Norður-Kóreumenn hafa hótað því að ráðast í miklar hernaðarlegar aðgerðir ef Suður-Kóreumenn hætta ekki að útvarpa í gegnum hátalara á landamærunum frá og með deginum í dag. Suður-Kóreumenn hafa brugðist við þeim hótunum með því að flytja fjögur þúsund íbúa í nágrenninu frá landamærunum og vara við því að ef Norður-Kóreumenn grípi til einhverra aðgerða verði þeim svarað af fullri hörku.
Upphaf spennunnar nú er sú að tveir suður-kóreskir hermenn slösuðust alvarlega af völdum jarðsprengja á hlutlausa svæðinu á dögunum. Stjórnvöld í Suður-Kóreu segja að Norður-Kóreumenn hafi komið sprengjunum þar fyrir, en því hafna Norður-Kóreumenn og segja það fráleitt. Í kjölfar þessa hófu hermenn að skjóta, en herbúðir beggja segja að hinir hafi skotið fyrst.
Í kjölfar sprenginganna hófu Suður-Kóreumenn að hefja á ný notkun hátalaranna á svæðinu, sem höfðu verið hljóðir í ellefu ár fram að því. Útvarpað er fréttum, veðurspá og tónlist frá Suður-Kóreu á svæðinu.
Bandarískar herflugvélar hafa flogið yfir landamærin ásamt flugvélum frá suður-kóreska hernum undanfarna daga og í morgun sendi varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna frá sér yfirlýsingu frá yfirmanni hersins, Martin Dempsey, þar sem fram kemur að hann hafi rætt við yfirmann suður-kóreska hersins, Choi Yoon-Hee, í gær. Þeir hafi sammælst um að herir beggja ríkja muni fylgjast vel með Norður-Kóreu næstu daga og Bandaríkin séu nú sem fyrr skuldbundin því að verja Suður-Kóreu.
Tveir háttsettir ráðgjafar stjórnvalda sitthvoru megin við landamærin funda nú í þorpinu Panmunjom. Eins og BBC bendir á er hins vegar vandamál fólgið í því að aðilar málsins eru ekki einu sinni sammála um hvað hefur átt sér stað undanfarna daga. Í samtali við Guardian segir Yang Moo-jin, prófessor í Seúl, að vegna þess hversu háttsettir ráðgjafar séu nú komnir til fundar sé hægt að breyta þessari krísu í tækifæri. Margir líti svo á að hótanir Norður-Kóreumanna séu tilraun til þess að ná athygli. Þó segja sérfræðingar sem Guardian ræddi við að þessir atburðir undanfarið séu þeir alvarlegustu á svæðinu frá því að Kim Jong-un komst til valda í Norður-Kóreu árið 2011.