Skuld sem íslenska ríkið skuldar Seðlabanka Íslands, og átti að vera gerð vaxtalaus samkvæmt fjárlögum ársins 2014, ber nú yfir fimm prósent markaðsvexti. Höfuðstóll hennar hefur á móti verið lækkaður um 26 milljarða króna sem gerir það að verkum að vaxtagreiðslur eru lægri en þær væru ef skuldabréfinu hefði ekki verið breytt.
Í frétt Kjarnans í gær, sem byggði á fjárlagafrumvarpi ársins 2015 og svörum þeirra sem koma að málinu við fyrirspurnum hans, var sagt að þessar aðgerðir hefðu lækkað vaxtakostnað ríkissjóðs um 8,1 milljarð króna. Var þar lagt út frá eftirfarandi setningu um að höfuðstólslækkunin hefði „ þau áhrif að vaxtakostnaður af bréfinu verður lægri en ella hefði orðið, eða 8,1 mia.kr. á árinu 2015“.
Hið rétta er að vaxtakostnaður ríkisins vegna bréfsins verður 8,1 milljarður króna á árinu 2015, um 300 milljónum krónum lægri en hann verður í ár og að minnsta kosti 2,6 milljörðum krónum lægri en hann hefði verið ef upphaflegum skilmálum skuldabréfsins hafði ekki verið breytt. Fjárlög ársins 2015 hefði því ekki orðið neikvæð án skuldbreytingarinnar.
Náðist ekki sátt um upprunalegu leiðina
Þegar fjárlagafrumvarp ársins 2014 var kynnt var lagt upp með að skilmálar skuldabréfs sem íslenska ríkið skuldar Seðlabanka Íslands, sem veitt var vegna endurfjármögnunar Seðlabankans eftir hrunið, yrðu endurskoðaðir þannig að lengt yrði í bréfinu til 20 ára og það gert vaxtalaust.Bréfið bar áður rúmlega tveggja prósenta verðtryggða vexti. Þetta átti að lækka vaxtakostnað ríkisins um 10,7 milljarða króna á þessu ári. Þessi eina aðgerð átti því að orsaka um helming útgjaldarlækkunar ríkisins á árinu 2014.
Ekkert varð af þessari aðgerð, þótt að aldrei hafi verið tilkynnt um það opinberlega. Heimildir Kjarnans herma að það hafi einfaldlega ekki náðst sátt um það milli ríkis og Seðlabanka. Þess í stað héldust vextirnir óbreyttir fram að síðustu áramótum. Þess í stað var ákveðið að skuldin yrði lækkuð um 26 milljarða króna og eigið fé Seðlabanka Íslands myndi lækka um sömu fjárhæð á móti. Þessir 26 milljarðar voru auk þess skráður sem arður til ríkisins frá Seðlabankanum og auka því tekjur ríkissjóðs á árinu 2014 gríðarlega.
Vaxtakostnaður ríkisins náði hins vegar ekki að lækka um 10,7 milljarða króna á þessu ári líkt og lagt var upp með. Þess í stað var hann 8,4 milljarða króna ,eða 2,3 milljörðum krónum lægri en sú upphæð sem átti að sparast. Þetta skipti þó ekki máli því arðgreiðsla Seðlabankans og auknar aðgreiðslur annarra fjármálafyrirtækja, aðallega Landsbankans, gerðu það að verkum að arðgreiðslur ríkisins í ár verða 46 milljörðum krónum hærri en fjárlagafrumvarpið lagði upp með. Því skapaðist ekki halli á ríkisrekstrinum vegna þessa.
Vaxtakostnaður lækkaði um 300 milljónir
Samhliða var samið um að skuldabréfið, sem stendur í 145 milljörðum króna eftir lækkunina, myndi bera markaðsvexti, sem eru yfir fimm prósent. Í fjárlagafrumvarpi ársins 2015 segir að höfuðstóll skuldabréfsins hafi verið lækkaður „um 26 mia.kr. í 145 mia.kr. en það hefur þau áhrif að vaxtakostnaður af bréfinu verður lægri en ella hefði orðið, eða 8,1 mia.kr. á árinu 2015“.
Kjarninn lagði þann skilning í þetta að vaxtakostnaður hefði lækkað um 8,1 milljarð króna vegna aðgerðarinnar. Það er ekki rétt heldur lækkaði hann um 300 milljónir króna, úr 8,4 milljörðum króna. Beðist er velvirðingar á þeim misskilningi.
Það er hins vegar ljóst að arðgreiðslan og niðurfærslan á láninu lækkar vaxtagreiðslur um nokkra milljarða króna, bæði í fyrra og í ár. Miðað við vaxtagreiðslur ríkisins af láninu 2013 þá greiðir ríkið 2,3 milljörðum krónum minna af því í ár og að minnsta kosti 2,6 milljörðum krónum minna á næsta ári. Miðað við það hefði afgangurinn af fjárlögunum næsta árs verið 1,5 milljarðar króna í stað 4,1 milljarðs króna líkt og lagt var upp með.