RÚV sagði upp samningum við Veðurstofuna og Veðurfélagið ehf. í sumar, en Veðurfélagið hefur sinnt veðurfréttum í sjónvarpi á RÚV undanfarin ár í verktöku. Veðurfélagið mun áfram sinna veðurfréttum í sjónvarpi RÚV fram að áramótum.
Veðurfélagið ehf. er í eigu Haraldar Ólafssonar veðurfræðings, sem jafnframt er framkvæmdastjóri félagsins, en hann kom sömuleiðis að stofnun þess árið 1998, ásamt veðurfræðingunum Trausta Jónssyni og Þórönnu Pálsdóttir. Aðalstarfsemi félagsins er dagskrárgerð í verktöku.
Veðurfélagið skilaði síðast inn ársreikningi vegna rekstrarársins 2009, sem skilað var til ársreikningaskrár í mars árið 2011. Hagnaður félagsins í árslok 2009 nam rétt rúmum 54.000 krónum, en þá var eigið fé þess neikvætt um 2,4 milljónir króna.
Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri RÚV segir að ákveðið hafi verið að segja upp samningum við Veðurstofu Íslands og Veðurfélagið í sumar, en fréttastofan eigi nú í viðræðum við veðurfræðinga sem sinnt hafa veðurfréttum í sjónvarpi um frekara samstarf. „Við vildum endurskipuleggja veðurþjónustuna heildstætt, það er fyrir sjónvarp, útvarp og vefinn og huga að eðlilegri þróun og breytingum. Við leituðum tilboða og hugmynda frá Veðurstofunni, Veðurfélaginu og Belgingi, og ákváðum að ganga til frekari viðræðna við Veðurstofuna. Samningurinn við Veðurfélagið hefur verið framlengdur fram að áramótum, samhliða munum við halda áfram viðræðum okkar við núverandi veðurfréttamenn um áframhaldandi samstarf.“