Vegagerðin hefur átt í viðskiptum við ættingja starfsmanna, fyrrum starfsmenn og jafnvel þá starfsmennina sjálfa. Um er að ræða hundruð milljóna króna viðskipti við bróður deildarstjóra hjá Vegagerðinni, hundruð milljóna króna verktöku fyrrum starfsmanns Vegagerðarinnar fyrir hana og kaup á ræstingum fyrir útibúi Vegagerðarinnar í Hafnarfirði af fyrirtæki í eigu deildarstjóra þess og eiginkonu hans. Kastljós greindi frá þessu í ítarlegri umfjöllun í kvöld.
Mörg hundruð milljona viðskipti við bróður deildarstjóra
Kastljós skoðaði nokkur tilfelli þar sem viðskipti Vegagerðarinnar, ein stærsta stofnun ríkisins, þóttu orka tvímælis. Fyrsta tilfellið voru viðskipti við fyrirtækin Samrás og Fjarorku, sem Vegagerðin hefur átt í viðskiptum við fyrir um 400 milljónir króna á undanförnum árum. Samrás fæst við verkfræðiráðgjöf og Fjarorka selur tækjabúnað. Ekkert þeirra verka sem fyrirtækin tvö unnu fyrir Vegagerðina voru boðin út og samkvæmt Kastljósi eru engin eru til staðar sem benda til að óformlegar verðkannanir liggi að baki neinu þeirra.
Guðlaugur Jónasson er eini eigandi Samrásar og á helming í Fjarorku. Hann er bróðir Nicolai Jónassonar, deildarstjóra þjónustudeildar Vegagerðarinnar. Viðskipti Vegagerðarinnar við Samrás og Fjarorku hafa öll farið fram í gegnum deildina sem Nicolai stýrir.
Í Kastljósi kom fram að samkvæmt lögum um opinber innkaup eigi að bjóða út öll vörukaup yfir 11,5 milljónum króna. Sum viðskiptin við fyrirtæki Guðlaugs eru langt yfir þeim mörkum. Auk þess leggja stjórnsýslulög og siðareglur Vegagerðarinnar bann við því að opinberir starfsmenn komi að viðskiptum við ættingja sína.
Fyrrum starfsmenn og eiginkonur
Annað tilfellið snýr að kaupum Vegagerðarinnar á verktakaþjónustu af fyrirtækinu Hnjóti hf. Það fyrirtæki var lengi í eigu Magnúsar Guðbjartssonar, sem er fyrrum starfsmaður Vegagerðarinnar. Hann er ekki lengur skráður eigandi Hnjóts en kemur fram sem talsmaður fyrirtækisins í samskiptum þess við Vegagerðina. Í umfjöllun Kastljóss kom fram að Magnús og þrjú fyrirtæki honum tengd, meðal annars Hnjótur, hafi fengið alls 205 milljónir króna fyrir ýmis verk sem unnin voru að beiðni fyrrum samstarfsmanna hans á undanförnum árum.
Þriðja tilfellið snýst um kaup útibús Vegagerðarinnar í Hafnarfirði á ræstingarþjónustu af fyrirtæki í eigu Bjarna Stefánssonar og eiginkonu hans fyrir alls um tíu milljónir króna á undanförnum árum. Bjarni er deildarstjóri útibúsins. Hann hafði sjálfur umsjón með kaupum á ræstingarþjónustunni og stýrði meðal annars útboði á þjónustunni þar sem mótbjóðandi sendi tilboð sitt meðal annars beint á Bjarna.
Í Kastljósi sagði að samkvæmt gögnum sem það hefur undir höndunum um þessi tilfelli sé „erfitt að sjá að viðskiptin samrýmist þeim reglum sem Vegagerðin hefur sjálf sett sér, auk þess sem eðlilegt er að spurt sé hvort þessi viðskipti, sem samtals nema á sjöunda hundrað milljóna króna, samræmist lögum“.
Í viðtali við Kastljós sagði Vegamálastjóri að vel geti verið að lög hafi verið brotin í viðskiptunum sem voru til umfjöllunar og að fullt tilefni sé til að fara betur yfir þau.
Vegagerðin hefur skipað starfshóp til að fara yfir viðskipti Vegagerðarinnar við ofangreinda aðila í kjölfar viðtalsins sem Kastljós tók við Vegamálastjóra . Viðskiptum ræstingafyrirtækisins sem Bjarni Stefánsson og eiginkona hans eiga við Vegagerðina hefur verið hætt.