Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingar spurði Guðlaug Þór Þórðarson ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála út í afstöðu hans til afslátta af vörugjöldum til handa bílaleigum vegna kaupa á bensín- og díselbílum, sem námu 875 milljónum í fyrra og munu nema um þúsund milljónum í ár, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi síðdegis í dag.
Jóhann Páll nefndi að þessir afslættir hefðu veittir í nafni orkuskipta, en bílaleigurnar geta ekki fengið þá nema þær kaupi ákveðið hlutfall vistvænna ökutækja inn í flota sína. Hann spurði hvort ráðherrann væri sammála því mati skattaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að þessi aðgerð gæti hreinlega tafið fyrir orkuskiptum í samgöngum og ef svo væri, hvernig ráðherra ætlaði að bregðast við og hvaða leiðir ráðherra vildi fara til að hraða rafvæðingu bílaleiguflotans.
Guðlaugur Þór hóf svar sitt á að þakka fyrir spurninguna, en minnti svo á að þetta einstaka mál væri ekki á hans borði, eins og þingmaðurinn vissi. Hann svaraði því ekki spurningum sem lutu að afstöðu hans til þessara niðurgreiðslna á bensín- og díselbílum sem bílaleigur hafa verið að kaupa og munu kaupa á þessu ári, né til þess hvaða aðgerða hann teldi rétt að grípa í því tiltekna máli.
Innviðir um allt land
Ráðherrann sagði svo að þrátt fyrir að Ísland stæði framar en flest ríki í rafvæðingu bílaflotans heilt yfir, væri enn mikið verk fyrir höndum. Rafbílavæðingu þyrfti að flýta eins og hægt væri.
„Ég held að við sjáum það í hendi okkar þegar við skoðum þetta mál að okkur liggur á að byggja upp innviði svo þetta sé raunhæfur kostur, ekki bara fyrir bílaleigur heldur fólk úti um allt land. Þegar við skoðum það hverjir eru búnir að eignast rafbíla [..] held ég að það megi alhæfa að það sé meira efnameira fólk sem býr á höfuðborgarsvæðinu, en þetta verður að vera fyrir alla,“ sagði Guðlaugur Þór.
Loftslagsmálin víða í stjórnarráðinu
Jóhann Páll steig svo aftur í ræðustól og sagðist telja að Alþingi yrði það talsvert erfitt um vik að ræða um loftslagsmál, ef það ætti að verða viðkvæðið að ákveðnir þættir loftslagsmála heyrðu undir aðra ráðherra.
„Nú er þannig til dæmis að stærsti losunarþáttur Íslands heyrir ekki undir loftslagsráðherra heldur matvælaráðherra, sem er losun sem kemur frá landi og viðbrögð við því. Eins er það þannig t.d. að almenningssamgöngur og innviðauppbygging almennt heyrir undir innviðaráðherra og þá veltir maður fyrir sér til hvers þessi loftslagsráðherra eiginlega er, þegar svona stórir þættir sem hafa með loftslagsmálin að gera heyra ekki undir hann,“ sagði Jóhann Páll, en bætti svo við að það væri ágætt að Guðlaugur Þór væri til í þetta samtal.
„Og við hljótum öll að vera sammála um það að orkuskiptum í samgöngum verður ekki náð fram með milljarða niðurgreiðslu til bensín- og díselbíla,“ sagði þingmaðurinn svo.
„Hrærður“ yfir miklu trausti
Guðlaugur Þór mætti aftur í ræðustól og svaraði því til að ef Jóhann Páll væri að leggja til að allt sem heyrði undir loftslagsmálin færi undir loftslagsráðherrann væri hann „hrærður“ enda þýddi það „gríðarleg völd“ því loftslagsmálin tengdust inn í alla þætti samfélagsins.
„Bara það að það sé lagt til að ég fái öll þessi völd, sá sem hér stendur, það er auðvitað bara ánægjulegt að heyra og ég met það þannig að það sé sérstakt traust sem háttvirtur þingmaður er að lýsa yfir gagnvart þeim sem hér stendur,“ sagði Guðlaugur Þór.
Hann bætti því svo við að loftslagsmálin væru málaflokkur sem snertu alla þætti og ekki mál eins ráðherra, né einnar ríkisstjórnar, heldur væru þau „þjóðarátak.“