Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í dag að hækka verð á bílastæðakortum fyrir íbúa miðborgar, sem gera þeim kleift að leggja í gjaldskyldustæðum í grennd við heimili sín. Hingað til hefur árskort kostað 8.000 krónur en með breytingunum mun það kosta ýmist 15 eða 30 þúsund krónur á ársgrundvelli að vera með íbúakort.
Breytingarnar fela í sér að nú verður gjald fyrir kortin greitt mánaðarlega, en ekki árlega eins og verið hefur. Þeir sem eiga hreina rafmagns- og vetnisbíla fá helmingsafslátt og greiða 1.250 krónur á mánuði eða 15 þúsund krónur á ársgrundvelli.
Þeir íbúar sem aka um á annars konar bifreiðum þurfa hins vegar að greiða 2.500 krónur á mánuði fyrir íbúakortið, sem gerir 30 þúsund krónur á ársgrundvelli, eða 22 þúsund krónum meira en fyrir þessa verðhækkun.
Fleiri íbúar hafi rétt á kortum en áður
Í tilkynningu frá borginni er lögð áhersla að þrátt fyrir þessar breytingar verði „gjald fyrir íbúakort í Reykjavík töluvert lægra en verð sambærilegra korta á Norðurlöndunum.“
Þar segir einnig að reglur um bílastæðakort hafi nýlega verið einfaldaðar og að þær hafi fjölgað til muna íbúum sem eigi rétt á þessum kortum.
„Íbúðir sem rétt hafa til úthlutunar eru nú um sjö þúsund talsins, en til samanburðar eru nú í gildi rúmlega eitt þúsund íbúakort,“ segir í tilkynningu borgarinnar.
Þar segir ennfremur að gjaldtaka í hverjum mánuði auki sveigjanleika fyrir íbúa og að grænir hvatar sem nú verða innleiddir í gjaldskrá íbúakorta styðji við „betri loftgæði og áherslur borgarinnar í loftslagsmálum.“
Athugasemd ritstjórnar: Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt, en áður sagði þar að um 375 prósenta hækkun væri að ræða.