Hækkun verðlags í marsmánuði varð til þess að kaupmáttur launa dróst saman um 0,8 prósent. Kaupmáttur launa, eins og hann mælist samkvæmt vísitölu Hagstofunnar, hafði hækkað nánast stanslaust í tólf mánuði en dróst núna saman. Árshækkun kaupmáttar launa mælist engu að síður um 4 prósent, en árshækkun mældist 5,6 prósent í febrúar.
Hagstofan birti í dag uppfærða vísitölu launa í marsmánuði sem hækkaði um 0,3 prósent frá fyrri mánuði. Samhliða er vísitala kaupmáttar birt en þar er tekið tillit til verðbólguþróunar. Þrátt fyrir að vísitala neysluverðs hafi aðeins hækkað um 1,6 prósent síðustu tólf mánuði, þá hefur hún hækkað nokkuð snarpt síðustu tvo mánuðina, í febrúar og mars. Vísitala neysluverðs, sem mælir almenna hækkun verðlags, hefur því hækkað umfram launavísitöluna og dregið þannig úr kaupmætti launa.
Myndin hér að ofan sýnir hvernig launavísitalan hækkaði um 0,3 prósent í mars frá febrúar. Vísitala neysluverðs hækkaði um eitt prósent milli þessara mánaða og leiðir til þess að kaupmáttur dróst saman um 0,8 prósent.*
Síðustu tólf mánuði, eða frá því í apríl 2014 til mars 2015, þá hefur verðlag hækkað um 1,6 prósent. Á sama tíma hefur launavísitalan hækkað um 5,6 prósent og kaupmáttur launa þannig um 4 prósent. Til marks um mikil áhrif verðbólgunnar á kaupmátt launa þá nam tólf mánaða hækkun kaupmáttar um 5,5 prósentum á tímabilinu frá nóvember síðastliðnum til febrúar. Árshækkun fellur nú niður í 4 prósent, samhliða verðlagshækkunum milli mánaða.
*Ef til vill sjá margir að sé 1 dregin frá 0,3 þá ætti að fást -0,7 en ekki -0,8. Munurinn getur legið í aukastöfum við útreikning Hagstofunnar.