Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,16 á milli janúar og febrúar. Með því er verðbólgan, sem mælist sem árshækkun vísitölunnnar, komin upp í 6,2 prósent. Þetta kemur fram í nýjustu verðlagstölum Hagstofu, sem birtust í morgun.
Samkvæmt tölunum hefur verðið á bensíni og olíum hækkað mest allra vöruflokka og er nú tæplega 20 prósentum dýrari en á sama mánuði í fyrra. Þar á eftir kemur reiknuð húsaleiga, sem tekur mið af fasteignaverði, en hún hefur hækkað um 16 prósent á einu ári.
Þættirnir sem höfðu mest áhrif á hækkun verðbólgunnar á milli janúar og febrúar voru hins vegar húsgögn og heimilisbúnaður, sem eru 12,6 prósent dýrari en í febrúar í fyrra. Þessi verðhækkun jók verðbólguna um 0,5 prósentustig.
Rekstur ökutækja hefur einnig hækkað töluvert í verði, og er nú 10 prósentum dýrari en í fyrra. Þessi liður hafði einnig töluverð áhrif á verðbólguna, sem er 0,15 prósentustigum meiri vegna hans.
Ýmsar matvörur eru einnig byrjaðar að hækka töluvert í verði. Þannig hefur verðið á mjólk, ostum og eggjum, auk feitmetis og kjöts hækkað um meira en sjö prósent á milli ára. Heilt yfir hafa matvörur hækkað um 4,3 prósent í verði á síðustu 12 mánuðum.