Almennt verðlag hefur hækkað um 6,7 prósent á síðustu tólf mánuðum hérlendis, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu um vísitölu neysluverðs. Þetta er mesta verðbólgan sem mælst hefur frá árinu 2010.
Verðbólgan hefur verið á mikilli uppleið síðustu mánuði, en hún hefur nú hækkað á milli mánaða í níu mánuði samfleytt. Lengst af hefur þar húsnæðisverð vegið þyngst í þeim mælingum, en á síðustu mánuðum eru þó umtalsverðar verðhækkanir byrjaðar að mælast í fleiri vöruflokkum.
Ef húsnæðisliðurinn er talinn frá væri verðbólgan hér á landi um 4,6 prósent, en húsnæðisliðurinn, sem er metinn út frá þriggja mánaða meðaltali húsnæðisverðs, er nú 17 prósentum hærri en í sama mánuði í fyrra.
Bensín og olíur hafa hins vegar hækkað mest í verði af öllum vöruflokkum, en hann er nú 24 prósentum dýrari en í fyrra. Einnig hefur rekstur ökutækja hækkað um 13 prósent og húsgögn og heimilisbúnaður orðinn 12 prósentum dýrari. Matvörur hafa svo hækkað um 6 til átta prósent.
Líkt og myndin hér að ofan sýnir jókst hlutdeild húsnæðisliðarins og olíuverðs í verðbólgumælingum á seinni hluta síðasta árs. Það sem af er ári hefur hlutdeild þessara tveggja þátta, sem er nú yfir 50 prósent, haldist nokkuð stöðug. Á sama tíma hafa aðrir vöruflokkar, líkt og matvara, byrjað að hækka hratt í verði.