Verðbólgan, mæld sem 12 mánaða hækkun í vísitölu neysluverðs, mældist 7,2 prósent í apríl. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofu.
Þetta er í fyrsta skiptið sem verðbólgan mælist yfir sjö prósentum hér á landi síðan um mitt ár 2010.
Sem fyrr er húsnæðisverð stærsti einstaki áhrifaþátturinn, en án hækkana á því mælist verðbólgan rúmum þremur prósentustigum minni.
Verð á bensíni og olíum heldur einnig áfram að hækka, en vöruflokkurinn er nú orðinn 26 prósentum dýrari en hann var í apríl í fyrra. Ef ekki væri fyrir þessum verðhækkunum væri verðbólgan einu prósentustigi minni.
Á mynd hér að neðan má sjá þróun undirliða verðbólgunnar frá upphafi faraldursins. Þar sést að húsnæðisliðurinn heldur áfram að vega þungt í þróun verðlagshækkunarinnar, en á síðustu tólf mánuðum hefur vægi matvöru og eldsneytis hækkað jafnt og þétt. Þessir þrír vöruflokkar útskýra nú tvo þriðju af verðbólgunni, sem væri í 2,2 prósentum ef þeir hefðu ekki hækkað í verði.
Á milli mánaða hækkaði vísitalan um 1,25 prósent. Þar hafði verð á mat- og drykkjavörum hefur jákvæð áhrif, en verð á þeim er nú 1,4 prósentum hærra en í síðasta mánuði. Húsnæðisliðurinn hækkaði svo um 2,4 prósent á milli mánaða og verð á flugfargjöldum til útlanda hækkaði um tæp 23 prósent.