Gengi hlutabréfa nær allra skráðra félaga í Kauphöll Íslands lækkkuðu við opnun markaðar í dag. Mest hafa bréf Össurar lækkað, eða um rúmlega sex prósent, í þó litlum viðskiptum sem samtals nema um ellefu milljónum króna. Gengi bréfa í Marel hefur lækkað um nær þrjú prósent í samtals 140 milljóna króna viðskiptum og hlutabréf í Icelandair Group hafa lækkað um tvö prósent í um þrjú hundruð milljóna viðskiptum. Um klukkustund er liðin frá upphafi viðskipta.
Lækkanir í dag koma í kjölfar nokkurra hækkana á hlutabréfum síðustu vikur. Í í byrjun ágúst var úrvalsvísitala Kauphallarinnar, OMXI8, rúm 1530 stig og reis hæst í ríflega 1600 stig í síðustu viku. Hún hefur nú gefið nokkuð eftir og nemur lækkun það sem af er degi um 1,7 prósenti.
Eins og Kjarninn greindi frá þá falla hlutabréf í verði víðar í heiminum. Í Kína lækkaði verð hlutabréfa í rúm átta prósent í dag og hafa ekki lækkað meira síðan 2007. Óvissa í Asíu hefur smitast inn á markaði í Evrópu. Þar hafa helstu vísitölur í London, París og Frankfurt lækkað um þrjú prósent það sem af er degi. Í Bandaríkjunum hafa hlutabréf einnig gefið eftir undanfarna daga og greinendur spyrja hvort mestu hækkunarhrinu sögunnar sé lokið.