Verðlag í Danmörku er 0,1 prósent lægra en það var fyrir ári síðan, samkvæmt verðlagsmælingum hagstofu landsins. Þetta er í fyrsta sinn í sextíu ár hið minnsta sem verðhjöðnun mælist í landinu. Á fréttasíðu Bloomberg er bent á að Danmörk sé þar með gengið í „verðhjöðnunarklúbb“ Evrópu. Eins og nýverið var fjallað var um í Kjarnanum þá er verðbólga almennt afar lág um þessar mundir í löndum álfunnar. Á síðasta ári voru sex lönd sem glímdu við verðhjöðnun.
Gott fyrir efnahag og almenning
Þótt verðhjöðnun geti verið merki um hægagang í efnahagslífinu, þá telja danskir sérfræðingar að lækkun verðlags sé jákvæð fyrir efnahag landsins og almenning. Verðhjöðnun er helst rakin til lækkana á olíuafurðum og segir Jan Sterup Nielsen, greinandi hjá Nordea í Kaupmannahöfn, að svo lengi sem þessi þróun sé vegna lækkandi olíuverðs þá muni hún ýta undir kaupmátt danskra heimila.
Verðhjöðnun á Íslandi?
Verðbólga á Íslandi mælist nú 0,8 prósent og hefur ekki verið lægri í 16 ár. Rétt eins og í Danmörku og víða annars staðar hafa olíulækkanir á heimsmörkuðum haft mikil áhrif til lækkunar verðbólgunnar. Í grafinu hér að ofan má sjá hvernig verðbólga hefur þróast í Danmörku og á Íslandi frá ársbyrjun 2012.
Ólíklegt þykir þó að verðlag lækki svo mikið að hér mælist verðhjöðnun. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands segir lækkun olíuverðs aðeins tímabundinn þátt til lækkunar verðbólgu. Nefndin ákvað í síðustu viku að halda stýrivöxtum óbreyttum þrátt fyrir að verðbólga sé afar lág, en stýrivöxtunum er ætlað að ýmist halda verðbólgunni í skefjum (ef verðbólga er of há þá eru vextir hækkaðir) eða örva efnahaginn með tilheyrandi verðlagshækkunum (ef verðbólga er of lág þá eru vextir lækkaðir). Hið síðarnefnda hefur aldrei átt við á Íslandi í þeim mæli að stýrivextir nálgist núll prósent, eins og raunin er víða í Evrópu í dag. Seðlabankinn Íslands spáir því að verðbólga verði áfram lág, eða undir tveimur prósentum fram á árið 2016.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 12. febrúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.