Samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra er opnað á að kaupaukar eða bónusgreiðslur til starfsmanna fjármálafyrirtækja fjórfaldist frá núverandi lögum og geti numið allt að heilum árslaunum.
Samtök fjármálafyrirtækja gagnrýna frumvarpið, segja það ekki ganga nógu langt, og vilja að hægt verði að greiða allt að 200 prósent árslauna í bónusgreiðslur. Samtökunum finnst eðlilegt að sá háttur verði hafður á Íslandi, að greiða allt að tvöföld árslaun í kaupauka, enda segi evrópskur lagarammi til um slíkt. Þá sé mikilvægt fyrir íslensku bankana að geta greitt sínu hæfileikaríka fólki samkeppnishæf laun.
Förum aðeins yfir þetta. Í fyrsta lagi verða ekki auðséð rökin fyrir því að hækka ofurlaun í íslenska bankageiranum, í einu mesta fákeppnisumhverfi á fjármálamarkaði sem fyrirfinnst á byggðu bóli. Þar sem um 40 prósent af 80 milljarða króna hagnaði bankanna á síðasta ári voru vegna þjónustugjalda. Þá er óhætt að fullyrða að erlendar fjármálastofnanir standa ekki í röðum eftir að ráða íslenska bankastarfsmenn, enda ferilsskráin tæplega glæsileg. Hér varð jú bankahrun án hliðstæðu, á meðan hæfileikaríka fólkið í bönkunum stóð vaktina.
Pæling Kjarnans: Eru íslenskir bankastarfsmenn, sem langt í frá lepja dauðann úr skel, í alvörunni svo yfirburða færir á sínu sviði að þeir verðskuldi allt að tvöföld árslaun í bónusgreiðslur? Er í alvöru stemmning fyrir því?