Stóru íslensku bankarnir þrír: Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki, lánuðu alls 5,3 milljarða króna verðtryggt til heimila landsins í ágústmánuði og tóku veð íbúð, að frádregnum upp- og umframgreiðslum. Því er um að ræða íbúðalán, og þorri þeirra var á föstum vöxtum. Fastir verðtryggðir vextir bankanna þriggja eru nú að jafnaði um 2,1 prósent.
Til samanburðar eru óverðtryggðir breytilegir vextir bankanna nú á bilinu sjö til 7,4 prósent og hafa ekki verið hærri síðan 2015.
Verðtryggð íbúðalán bankanna þriggja til heimila landsins jukust um 3,7 milljarða króna í síðasta mánuði og hafa ekki verið meiri innan eins mánaðar síðan í júlí 2018, þegar verðtryggðu útlánin til heimila námu 6,2 milljörðum króna. Þá var staðan í hagkerfinu hins vegar allt önnur og verðbólga mældist 2,6 prósent. Aðstæður til að taka verðtryggð lán voru þar af leiðandi mun skaplegri en í dag.
Þetta má lesa út úr nýbirtum hagtölum Seðlabanka Íslands um bankakerfið.
Þar kemur einnig fram að óverðtryggð íbúðalán til heimila hafi verið 10,8 milljarðar króna í í ágúst, sem er 4,8 milljörðum krónum minna en bankarnir lánuðu óvertryggt til íbúðarkaupa í júlímánuði.
Mikill samdráttur í útlánum til fyrirtækja
Þessi þróun er líka athyglisverð í ljósi þess að ný útlán banka heilt yfir drógust gríðarlega saman í ágúst. Þeir lánuðu alls 29,4 milljarða króna í þeim mánuði sem er rúmur helmingur þess sem bankarnir lánuðu í júlí. Raunar hafa þeir ekki lánað jafn lítið innan mánaðar síðan í desember í fyrra. Til að setja viðsnúninginn í annað samhengi má benda á að í maí lánuðu Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki viðskiptavinum sínum, jafnt heimilum sem fyrirtækjum, alls 68,1 milljarð króna. Það voru mestu nettó útlán banka hérlendis innan mánaðar sem birst hafa í hagtölum Seðlabanka Íslands, sem ná aftur til byrjun árs 2013.
Í síðasta mánuði námu útlán til fyrirtækja, að frádregnum upp- og umframgreiðslum, hins vegar einungis 6,9 milljörðum króna. Það er minna en fjórðungur þess sem lánað var til þeirra í júlí.
Miklar vaxtahækkanir gera lántöku mun dýrari en áður
Ástæður þessarar þróunar ættu að vera öllum ljósar. Mikil verðbólga hefur kallað á miklar vaxtahækkanir – Seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti úr 0,75 í 5,5 prósent síðan í maí í fyrra – sem gera alla lántöku miklu dýrari en áður.
Á heimasíðu Alþýðusambands Íslands (ASÍ) var nýverið tekið dæmi af breytilegu óverðtryggðu láni upp á 43,2 milljónir króna sem tekið var í fyrravor til að kaupa 90 fermetra íbúð í Kópavogi.
Greiðslubyrði þess láns hefur hækkað um 102 þúsund krónur á mánuði og er nú 266 þúsund krónur. Á ársgrundvelli nemur aukin greiðslubyrði lánsins rúmlega 1,2 milljónum króna.
Á sama tíma hefur greiðslubyrði á verðtryggðum lánum hækkað mun hægar. Ástæða þess að greiðslubyrði verðtryggðra lána er lægri er sú að verðbætur leggjast á höfuðstól lána.
Verð byrjað að lækka
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 48 prósent frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst snemma árs 2020 og um 23 prósent síðustu tólf mánuði. Það er langt umfram verðbólgu á tímabilunum. Þessi mikla hækkun hefur verið drifkrafturinn í verðbólgunni undanfarin misseri og skörpum vaxtahækkunum Seðlabanka Íslands var ætlað að draga úr henni. Tilgangurinn var að kæla íbúðamarkaðinn.
Það hefur tekist að einhverju leyti. Samkvæmt síðustu tölum Þjóðskrár um vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði hún um 0,4 prósent í ágúst. Það var í fyrsta sinn síðan í nóvember 2019 sem íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði milli mánaða. Lækkunin kom til vegna þess að vísitalan fyrir sérbýli gaf eftir en verð á fjölbýli á svæðinu hélt áfram að hækka í ágúst.