Í vikunni verður að öllum líkindum kynnt frumvarp um áætlun sem á að losa um fjármagnshöft. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur sagt að það verði lagt fram á vorþingi og það eru ekki margir dagar eftir af því. Nú þegar virðist liggja fyrir að þau skref sem á að taka feli í sér að gefin verði út skuldabréf í erlendri mynt til að færa kvikar eignir í langtímaeignir auk þess sem lagður verður á svokallaður stöðugleikaskattur.
Greiningardeild Arion banka áætlaði í síðustu viku að slíkur skattur gæti skilað allt að 529 milljörðum króna, verði hann 30 prósent. Þeir ráðamenn sem tjáð hafa sig opinberlega um stöðugleikaskattinn hafa allir lagt áherslu á að hann sé ekki innheimtur til þess að eyða í framkvæmdir eða að verða hluti af útgjöldum ríkissjóðs. Hvað verður þá gert við svo stóra fjárhæð?
Í skýrslu hagfræðinganna Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar um losun hafta, sem birt var í síðustu viku, segja þeir að grunnástæða þess vanda sem Íslendingar standa frammi fyrir í dag, risavaxnar krónueignir útlendinga innan íslenska efnahagskerfisins, sé tilkomin vegna fjórfjöldunar á peningamagni í umferð á árunum 2003 til 2008. Peningaprentun, aðallega vegna mikils vaxtar íslensku bankanna, leiddi þessa þróun af sér. Þessir peningar sem voru prentaðir eru nú komnir í eigu erlendra aðila sem reyna að komast burt úr íslensku hagkerfi með þá og í aðra gjaldmiðla.
Skýrsluhöfundarnir lögðu til að allar lausnir á þessum vanda ættu að byggja á því að peningamagnið sem innheimtist með stöðugleikaskattinum verði tekið úr umferð eða því umbreytt úr innlánum í langtímafjármögnun fyrir bankakerfið. Allar aðrar leiðir muni leiða til verðbólgu og óeðlilegrar hækkunar á eignaverði.
Þetta hljómar allt skynsamlegt. Það verður hins vegar að taka inn í dæmið að sú ríkisstjórn sem nú situr að völdum nýtur fádæma óvinsælda. Og það er freistandi fyrir hana að sleppa því að henda öllum ágóðanum á bálið með langtíma hagsmuni að leiðarljósi og nýta þess í stað hluta hans til að skapa sér skammtímavinsældir.
Mun hún standast freistinguna?