Sálfræðingum í heilsugæslu á að fjölga um átta á næsta ári svo að hægt verði að bjóða sálfræðiþjónustu í heilsugæslu í öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu, en 69 milljónum króna verður varið í verkefnið samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.
Núna eru stöðugildi sálfræðinga hjá heilsugæslunni fimmtán talsins. Fjölgun þeirra er gerð í tengslum við áætlun um betri heilbrigðisþjónustu sem á að efla heilsugæslu og bæta aðgengi að henni um allt land.
Áætlað er að einn sálfræðing þurfi á hverja níu þúsund íbúa, miðað við breska áætlun um aukið aðgengi að sálfræðingum sem notast er við í ráðuneytinu. Það jafngildir 36,6 stöðugildum í heilsugæslunni.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir í tilkynningu velferðarráðuneytisins að hann vilji fjölga sálfræðingum í heilsugæslunni um fjórtán til viðbótar árin 2017 og 2018. „Það hefur lengi verið vitað að umtalsverður hluti fólks sem leitar til heilsugæslunnar glímir við vandamál þar sem menntun og þekking sálfræðinga gæti komið að góðum notum, s.s. vandamál eins og kvíði, þunglyndi, svefnvandamál og fleira mætti telja. Með þessu móti eflum við heilsugæsluna og sníðum þjónustu hennar betur að þörfum notenda. Á því leikur enginn vafi.“