Verkfall Læknafélags Íslands hófst á miðnætti. Verkfall Skurðlæknafélags Íslands hefst svo að morgni 4. nóvember hafi ekki heldur samist. Þrátt fyrir verkfallsaðgerðirnar verður bráðatilfellum sinnt á Landspítala en spítalinn hefur undirbúðið undanþágulista, lögum samkvæmt, sem ætlað er að tryggja öryggi sjúklinga.
Búist er við röskun á starfi Landspítalans á meðan á verkfalli stendur, en aðgerðirnar ná til tiltekinna sviða og er fólk hvatt til þess að fylgjast með framvindu mála á Facebook-síðu landspítalans og á vefsíðu hans.
Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum, segir í pistli á vefsíðu spítalans að verkfallið sé mikið áhyggjumál vegna þess hve mikið álag er á spítalanum fyrir. „Við höfum þungar áhyggjur af yfirvofandi verkfalli lækna. Landspítali er ekki viðsemjandi þeirra en áhrif verkfallsins munu að líkindum vega þyngst hér. Enda þótt bráðatilvikum verði sinnt og verkfall Læknafélags Íslands raðist ekki á sama tíma á öll klínísk svið spítalans er starfsemin svo samantvinnuð að búast má við áhrifum verkfalls út yfir það svið sem verkfallið nær formlega til. Sem dæmi má nefna að verkfall á rannsóknarsviði hefur mikil áhrif á allar deildir spítalans sem reiða sig á þjónustu þess, t.d. vegna úrlestra á myndrannsóknum eða öðrum rannsóknum. Á skurðlækningasviði og aðgerðasviði má búast við að fresta þurfi aðgerðum og biðlistar lengist þar með. Þá má nefna að verkfall lækna á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins gæti haft umtalsverð áhrif þar sem búast má við að einhverjir telji sig þurfa að leita til bráðamóttöku Landspítala. Það er ástæða til að hafa af því sérstakar áhyggjur þar sem álag og biðtími þar er nú þegar umtalsverður,“ segir Ólafur í pistli sínum.
Uppfært: Upphaflega var fréttin skrifuð rétt fyrir miðnætti, áður en verkfallið skall á, en hefur nú verið uppfærð.