Mikilvægur grunnur í hagkerfinu tengist fasteignaviðskiptum. Margfeldisáhrif fasteignaviðskipta á ýmsa verslun eru þó nokkur. Nýir eigendur húsnæðis eyða peningum í að koma sér fyrir á nýjum stað og koma hlutum í það horf sem þeir vilja. Af þessum sökum eru fasteignaviðskipti mikilvægur þáttur í daglegum gangi efnahagsmála.
Óhætt er að segja að mikið hökt sé nú komið upp í tengslum við fasteignaviðskipti. Verkfall lögfræðinga hjá sýslumannsembættum hefur gert það að verkum að kaupsamningum hefur ekki verið þinglýst í margar vikur. Engum kaupsamningi var þinglýst frá 6. apríl til 30. apríl, og því eru nýjustu tölur um gang mála á fasteignamarkaðnum nær algjörlega ómarktækar. Velta í mars var 27,6 milljarðar króna, en í apríl 2,5 milljarðar. Þetta segir sína sögu um umfangið.
Það er mikið umhugsunarefni hversu langan tíma það ætlar að taka fyrir stjórnvöld að ná samningum um kaup og kjör við sérfræðinga, eins og lögfræðinga og fleiri stéttir. Það eitt að svo mikið hökt sé komið í fasteignaviðskipti hefur áhrif á fjölmargt í hagkerfinu, sem ekki tengist þinglýsingarvinnunni beint. Vonandi fera að sjá fyrir endann á verkfallinu, og mikilvægt að stjórnvöld átti sig á alvöru málsins og ljúki deilunni með samningum hið fyrsta.