Í upphafi þessa mánaðar voru fleiri flóttamenn komnir með vernd, og enn staddir í búsetuúrræðum á vegum Vinnumálastofnunar, en sem nam heildarfjölda allra umsækjenda um alþjóðlega vernd sem voru í þjónustu hjá Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarbæ og Reykjanesbæ samanlagt.
Þetta kemur fram í tölulegum upplýsingum sem voru til umfjöllunar á ríkisstjórnarfundi snemma mánaðar og Kjarninn fékk frá forsætisráðuneytinu.
Samkvæmt þeim upplýsingum voru alls um 870 manns stödd í búsetuúrræðum á vegum Vinnumálastofnunar fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Þar af voru 400 manns þegar komin með stöðu flóttamanns hér á landi, og því ekki lengur umsækjendur um alþjóðlega vernd.
Eftir að flóttafólki er veitt vernd er þeim heimilt að dvelja í allt að átta vikur í húsnæði á vegum Vinnumálastofnunar, en við veitingu verndar færist ábyrgð á framfærslu og annarri þjónustu yfir til sveitarfélaga.
Til þessa dags hafa einungis fimm sveitarfélög undirritað samning um þátttöku í samræmdri móttöku flóttafólks, þau þrjú sem áður voru nefnd auk Árborgar og Akureyrarbæjar.
Unnið er að því að fá fleiri sveitarfélög að borðinu og segir í skriflegu svari frá forsætisráðuneytinu að „nauðsynlegt“ sé að fleiri sveitarfélög geri samninga um móttöku flóttafólks.
Umsækjendur um vernd og flóttamenn
Kerfið sem smíðað hefur verið utan um móttöku fólks á flótta á Íslandi skiptist í tvennt. Í fyrsta lagi er það móttökukerfið fyrir þau sem hingað koma og sækjast eftir alþjóðlegri vernd, en þessi hópur fólks hefur ákveðinn rétt til þjónustu á meðan stjórnvöld vinna úr umsóknum þeirra.
Reykjavík, Hafnarfjörður og Reykjanesbær eru einu sveitarfélögin sem hafa samið sérstaklega við ríkið um að sinna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd og voru þau samtals að þjónusta um 370 manns úr þeim hópi í byrjun september.
Í þessum þremur sveitarfélögum er Vinnumálastofnun, sem tók nýlega við þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd sem áður var á hendi Útlendingastofnunar, svo einnig með sín búsetuúrræði.
Ef umsóknir um vernd eru samþykktar fer flóttafólkið svo inn í samræmda mótttökukerfið, sem þjónustar hvort um sig þá sem fá stöðu flóttamanna hér á landi eftir að hafa komið hingað á eigin vegum og sótt um vernd og þá einstaklinga sem íslenska ríkið hefur ákveðið að bjóða velkomið, svokallaða kvótaflóttamenn eða boðsflóttamenn.
Sveitarfélög sögðust komin að þolmörkum
Tvö sveitarfélaganna þriggja sem veita umsækjendum um alþjóðlega vernd þjónustu, Hafnarfjörður og Reykjanesbær, hafa á undanförnum vikum gagnrýnt stjórnvöld á opinberum vettvangi fyrir að koma upp búsetuúrræðum fyrir umsækjendur um vernd innan sveitarfélaganna og sagði bæjarstjórn Hafnarfjarðar í ályktun að það væri „útilokað“ að innviðir sveitarfélagsins gætu tekið við fleira flóttafólki í bili, sérstaklega hvað skólaþjónustu og stuðning til barna varðaði.
Bæjarstjórnin í Reykjanesbæ sagði að það væri „ekki ásættanlegt“ að ríkið væri að leigja húsnæði undir hundruð umsækjenda um vernd í einu og sama hverfinu í bænum, Ásbrúarhverfi, og kallaði eftir því að aukið fjármagn til reksturs grunninnviða samfélagsins, eins og skólanna og heilbrigðisstofnunarinnar fylgdi.
Þessi mál voru til umræðu á tveimur ríkisstjórnarfundum snemma í mánuðinum. Þar var meðal annars lagt fram minnisblað með þeim tölulegu upplýsingum sem finna má hér að ofan. Í svari sem Kjarninn fékk frá forsætisráðuneytinu sagði sem áður segir að nauðsynlegt væri að fleiri sveitarfélög gerðu samninga um við Vinnumálastofnun um móttöku flóttafólks.
Vinna til að stuðla að því er í gangi. Í svari frá forsætisráðuneytinu var félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytið sagt vinna að ljúka samningum um samræmda móttöku þannig að fjölga mætti sveitarfélögum sem taka á móti flóttafólki sem komið er með vernd.
Í svari sem Kjarninn fékk frá því ráðuneyti á dögunum segir að ekki sé enn búið að ljúka neinum samningum, en að mörg sveitarfélög hafi setið kynningarfund um ramma að þjónustusamningi um samræmda móttöku flóttafólks sem haldinn var af Sambandi íslenskra sveitarfélaga undir lok ágúst.
„Viðræður við fleiri sveitarfélög standa nú yfir en ekki liggur ljóst fyrir á þessari stundu hvaða sveitarfélög munu taka að sér móttökuna. Ráðherra vonast til að sem flest af þeim sveitarfélögum sem sýndu áhuga á því að taka þátt í verkefninu í vor gangi til samninga um samræmda móttöku flóttafólks og hefur lagt áherslu á að þetta sé sameiginlegt verkefni okkar allra,“ sagði í svari ráðuneytisins.
Samkvæmt forsætisráðuneytinu er félags- og vinnumarkaðaráðuneytið sömuleiðis að undirbúa sviðsmyndagreiningu um húsnæðisþörf til næstu mánaða og hvernig best sé að takast á við áskoranir sem eru framundan í þverfaglegu samstarfi.
Ríflega 2.600 sótt um alþjóðlega vernd á árinu
Árið 2022 hefur slegið öll fyrri met um komur flóttafólks hingað til lands. Samkvæmt minnisblaði sem lagt var í ríkisstjórn fyrr í mánuðinum höfðu 2.621 manns sótt um alþjóðlega vernd frá áramótum og fram til 8. september. Þar af voru 1.595 með tengsl við Úkraínu og 509 manns með tengsl við Venesúela.
Allt síðasta ár sóttu 871 manns um alþjóðlega vernd á Íslandi og var það í takti við fjölda umsókna á árunum 2018 og 2019, en árið 2020 voru umsóknir ögn færri, eða 654, sem ætla má að hafi verið vegna ferðatakmarkana í tengslum við kórónuveirufaraldurinn.