Veruleg hagræðing í undirliggjandi rekstri MP banka og Straums mun nást fram með sameiningu bankanna tveggja, en samkvæmt fjárfestakynningu Straums, sem Morgunblaðið vitnaði til í fréttaumfjöllun sinni í nóvember í fyrra, þá geta sparast 666 milljónir króna á ári. Eins og tilkynnt var um í dag, þá hefur samkomulag náðst milli MP banka og Straums um samruna bankanna með fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakannana, samþykki hluthafafunda og eftirlitsaðila. Þetta kom fram í sameiginlegri tilkynningu sem bankarnir tveir sendu frá sér.
Í kynningunni, sem ber heitið Project Snæfellsjökull, kemur enn fremur fram að mögulegt verði að fækka um 23 stöðugildi, en það nemur um fimmtungi starfsmannafjölda beggja fyrirtækja, að því er fram kom í umfjöllun Morgunblaðsins.
Sameining bankanna tveggja hefur legið í loftinu frá því í fyrrahaust. Kjarninn skrifaði meðal annars ítarlega fréttaskýringu í byrjun nóvember 2014 um þær þreifingar sem áttu sér þá stað á bakvið tjöldin. Fyrirsögn hennar var „Straumur kaupir hlut í ÍV – MP, Straumur og ÍV í eina sæng?“. Þá hafði Straumur reynt það sem margir upplifðu sem óvinveitta yfirtöku á MP banka með því að kaupa hlut nokkurra hluthafa í bankanum. Síðan þá hafa staðið yfir þreifingar milli hluthafa MP banka og Straums.
Finnur Reyr Stefánsson, formaður stjórnar Straums, staðfesti í samtali við Kjarnann að lagt væri upp með að hafa tvo forstjóra í sameinuðum banka, ef allt gengur að óskum í sameiningarviðræðunum; Sigurð Atla Jónsson, forstjóra MP banka, og Jakob Ásmundsson, forstjóra Straums. Finnur sagði einingu ríkja um þetta atriði í báðum hópum.
Þá segir Finnur mikil tækifæri felast í sameiningu bankanna. „Sameinaður banki muni horfa til sóknarfæra á sviði eignastýringar og fjárfestingabankastarfsemi og staða hans verður sterk á þeim sviðum,“ sagði Finnur.
Í sameiginlegri fréttatilkynningu MP banka og Straums kemur fram, að Sameinaður banki hafi jafnframt trausta eiginfjárstöðu og styrk til að veita fjárfestum, sparifjáreigendum og atvinnulífi sérhæfða bankaþjónustu.