Vestmannaeyjabær hefur, ásamt öðrum fyrrverandi stofnfjáreigendum í Sparisjóði Vestmannaeyja, ráðið Jónas Fr. Jónsson, lögmann og fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, til að gæta hagsmuna sinna gagnvart sjóðnum.
Fjármálaeftirlitið tók nýverið ákvörðun um samruna Sparisjóðs Vestmannaeyja og Landsbankans, en samruninn tók formlega gildi þann 29. mars síðastliðinn. Bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar telur að margt í aðdraganda falls sparisjóðsins orki tvímælis, að því er fram kemur í ályktun bæjarstjórnar frá 1. apríl síðastliðnum.
Í ályktun bæjarstjórnar er sá skammi tími sem Fjármálaeftirlitið gaf stjórn sjóðsins til að bregðast við bágri fjárhagsstöðu hans harðlega gagnrýndur. „Öllum er ljóst að sá vandi sem steðjaði að Sparisjóðnum var engin landsvá eins og þegar íslenska bankakerfið hrundi haustið 2008. [...] Stjórn og stjórnendum Sparisjóðsins gafst enginn tími til að gera rekstaráætlanir eða vinna annan undirbúning sem nauðsynlegur var til að kynna núverandi stofnfjáreigendum framtíðarmöguleika sjóðsins með það í huga að leggja sjóðnum til nægjanlegt fjármagn til endurreisnar hans. Því gafst ekki nauðsynlegt ráðrúm til umræðu og undirbúnings undir mögulega endurreisn sjóðsins,“ segir í ályktuninni.
Ekki hugað að samkeppnissjónarmiðum
Þá gagnrýnir bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar að Landsbankanum, einum stofnfjárhafa, hafi verið veitt heimild til að kynna sér útlánastöðu sjóðsins. „Þetta er ekki bara óskiljanlegt út frá sjónarmiðum jafnræðis gagnvart stofnfjárhöfum, heldur einnig gagnvart almennum samkeppnissjónarmiðum.“
Vestmannaeyjabær hefur meðal annars falið Jónasi Fr. að vinna lögfræðilegt mat á „framgöngu ríkisaðila“ í tengslum við atriði sem koma fram í minnisblaði Elliða Vignissonar bæjarstjóra, sem fjallar um þá stöðu sem leiddi til „þess að Sparisjóður Vestmannaeyja var á þvingaðan máta sameinaður við Landsbankann.“