Peking, höfuðborg Kína, hefur verið valin til að halda vetrarólympíuleikana árið 2022. Borgin verður þar með sú fyrsta til þess að halda bæði sumar- og vetrarólympíuleika en sumarólympíuleikarnir voru haldnir í borginni árið 2008. Kínverjar hyggjast endurnýta marga af þeim íþróttaleikvöngum sem byggðir voru fyrir Ólympíuleikana 2008.
Ólympíunefndin, sem kýs um gestgjafa, fundar þessa vikuna í Kúala Lumpur í Malasíu. Keppinautur Peking var borgin Almaty, stærstu borg Kazakhstan. Blaðamaður New York Times segir að með valinu virðist nefndin kjósa kunnuglega, kínverska skipuleggjendur í Peking umfram Almatry sem minna er vitað um. Áður höfðu fjórar evrópskar borgir dregið sig út úr valinu. Meðal þeirra voru skipuleggjendur í bæði Osló og Stokkhólmi sem lýstu yfir áhuga á fyrri stigum ferlisins. Pólitískar og fjárhagslegar ástæður urðu hins vegar til þess að borgaryfirvöld sóttu ekki um gestgjafahlutverk.