Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,5 prósentustig og verða þeir því 2 prósent. Þetta kemur fram í tilkynningu nefndarinnar sem birt var á vef bankans í morgun.
Samkvæmt tilkynningunni hafa hagvaxtarhorfur batnað nokkuð, en búist er við að hagvöxturinn muni nema 4 prósentum í ár og 5 prósentum á næsta ári. Hins vegar segir nefndin að óvissa sé enn mikil og þróun efnahagsmála muni sem fyrr markast af framvindu farsóttarinnar.
Nefndin segir að verðbólgan, sem mældist 4,5 prósent í október, hafi að stórum hluta vegna innlends kostnaðarþrýstings, hækkunar húsnæðisverðs undanfarna mánuði. Hins vegar bætir nefndin við að áhrif hækkana alþjóðlegs olíu- og hrávöruverðs hafi einnig aukist. Hún segir einnig að undirliggjandi verðbólga vera minni og hafa minnkað undanfarna mánuði.
Verðbólguhorfur hafa versnað nokkuð frá því í ágúst sem m.a. má rekja til þrálátari alþjóðlegra verðhækkana, hraðari viðsnúnings í innlendum efnahagsumsvifum og hækkunar launakostnaðar. Horfur eru á að verðbólga aukist áfram á næstu mánuðum en taki síðan að hjaðna enda haldist kjölfesta verðbólguvæntinga við markmið.
Í lok tilkynningarinnar ítrekar nefndin að hún muni beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að tryggja að verðbólgan hjaðni aftur í markmið innan ásættanlegs tíma.