Samkvæmt nýjum útreikningum Viðskiptaráðs hafa 70 prósent fjármagnsins sem ríkisstjórnin hefur varið í efnahagsúrræði til að sporna gegn áhrifum yfirstandandi kreppu runnið að einhverju leyti til heimilanna. Þetta er langtum hærra hlutfall en VR fékk í útreikningum sínum í nóvember á síðasta ári, en samkvæmt þeim myndu einungis 13 prósent af fjármagninu renna til heimilanna.
Munurinn á útreikningum VR og Viðskiptaráðs felst í mismunandi skilgreiningu því hvaða útgjaldaliðir ríkissjóðs teljast til sérstakra úrræða ríkisstjórnarinnar. Einnig eru stofnanirnar ósammála um það hvort einstök úrræði renni til heimila eða fyrirtækja.
Hlutabótaleiðin talin gagnast báðum
Í útreikningum VR eru fjármunir sem fóru í hlutabótaleið ríkisstjórnarinnar, sem fól í sér launagreiðslur starfsmanna í skertu starfshlutfalli, flokkaðir sem stuðningur við fyrirtæki.
Samkvæmt Viðskiptaráði fellur hlutabótaleiðin hins vegar í flokk úrræða sem gagnast bæði fyrirtækjum og heimilum, þar sem hún gerir fyrirtækjum kleift að viðhalda ráðningarsambandi með sem minnstri skerðingu á tekjum einstaklinga. Sömu sögu er að segja um niðurgreiðslur launa á uppsagnarfresti, sem VR flokkar sem styrkur til fyrirtækja, en Viðskiptaráð flokkar sem styrkur til bæði heimila og fyrirtækja.
Misræmi í aðgerðum til að greiða fyrir innflutningi
Samkvæmt Viðskiptaráði eru úrræði stjórnvalda til stuðnings fyrirtækjum skipt í þrjá flokka: Í fyrsta flokknum eru greiðsluhlé lána, en samtökin telja að þau séu ígildi 27 milljarða króna stuðnings. Í öðrum flokki eru svo brúar- og stuðningslán, og í þeim þriðja eru tekjufalls- og lokunarstyrkir, auk frestun gjalda. Þessir liðir eru hvor um sig taldir nema 12 milljörðum króna.
Samkvæmt útreikningum VR höfðu aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir innflutningi. kostað ríkissjóð rúmlega 20 milljarða króna í nóvember síðastliðnum. Þessar aðgerðir fela í sér niðurfellingu tollafgreiðslugjalds vegna flugvéla og skipa og frestun gjalddaga aðflutningsgjalda, en Viðskiptaráð greinir ekki sérstaklega frá þeim í sínum útreikningum.
Atvinnuleysisbætur taldar með, en ekki minni tekjuskattur
Stærsta misræmið milli útreikninga Viðskiptaráðs og VR er þó vegna þess að Viðskiptaráð telur aukin útgjöld atvinnuleysisbóta með í úrræðum ríkisins í kreppunni. Samtökin bæta þó við að þessi útgjöld, sem talin eru hafa styrkt heimili um 34 milljarða króna, kölluðu ekki á sérstakar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar, heldur séu þau svokölluð sjálfvirk sveiflujöfnunarúrræði, sem hafi komið heimilum til góðra nota.
Samkvæmt Viðskiptaráði voru ekki til staðar sambærileg sveiflujafnandi úrræði fyrir fyrirtæki þegar faraldurinn hófst. Ef litið er hins vegar á skýrslu fjármálaráðuneytisins um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í kreppunni sést að sjálfvirkir sveiflujafnarar fela bæði í sér aukin útgjöld vegna atvinnuleysisbóta og lægri innheimtu tekjuskatta og tryggingagjalds.
Ætla má að fyrirtæki hafi borgað umtalsvert minna í tekjuskatt á síðasta ári vegna kreppunnar, en samkvæmt nýjum tölum Hagstofu minnkuðu heildartekjur ríkissjóðs um 44,6 milljarða króna í fyrra, miðað við árið 2019.
Hvað með séreignarsparnaðinn?
Annað misræmi milli útreikninganna samtakanna tveggja var að Viðskiptaráð tekur með útgreiðslu séreignarsparnaðs einstaklinga sem stuðningsúrræði stjórnvalda til heimila. Þennan lið, nemur 26 milljörðum króna, tekur VR hins vegar ekki með í reikninginn sem úrræði stjórnvalda, þar sem sparnaðurinn sem tekinn er út sé í eigu heimilanna.
Aftur á móti telur VR að útgreiðsla séreignarsparnaðar hafi falið í sér neikvætt framlag hins opinbera til heimilanna, þar sem sparnaðurinn hafi verið staðgreiðsluskyldur, og að úttekt hans hafi leitt til 7,5 milljarða króna tekjuaukningar ríkis og sveitarfélaga.