Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði áfengissölu á Íslandi að umræðuefni undir liðnum störf þingsins á Alþingi í vikunni.
„Sagan geymir ýmis dæmi þess að ný tækni og nýjar vörur og nýir viðskiptahættir sem þeim fylgja rjúfi einokun á ákveðnum sviðum og það þótt að ríkisvaldið sé alveg staðráðið í því að halda einokunarstöðu sinni,“ sagði þingmaðurinn og bætti því að með aukinni netverslun undanfarinna ára hefði einokun Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins verið rofin að því leyti að Íslendingar gætu núna með einföldum hætti pantað áfengi frá öðrum smásölum en ÁTVR.
Það ætti þó einungis við erlendar smásölur handan hafsins „með tilheyrandi óhagræði fyrir viðskiptavini hér á landi vegna tíma og kostnaðar sem fylgir þessum flutningi yfir hafið“.
Nefndi Sigríður í þessu samhengi fréttir þess efnis að franskt fyrirtæki, Santewines SAS, byði Íslendingum nú að kaupa vín á vef sínum og fá það afhent samdægurs eða næsta virka dag. „Samkvæmt upplýsingum á vef fyrirtækisins er birgðahald fyrirtækisins hér á landi sem útskýrir stuttan afgreiðslutíma. Það er rétt að halda því til haga að fyrirtækið skilar, að því að mér skilst, öllum áfengissköttum til ríkissjóðs og áfengisverslunarinnar og gætir einnig að aldri viðskiptavina,“ sagði hún.
„Kominn tími til fyrir löngu“
Spurði þingmaðurinn í framhaldinu til hvers Íslendingar héldu í þessa einokunarverslun ríkisins. „Til hvers höldum við þessum einokunartilburðum áfram? Þeir virðast eingöngu hafa þau áhrif að fyrirtæki sem gætu verið stofnuð hér á landi eru stofnuð erlendis og greiða þar tekjuskatt ef vel gengur. Varla trúa menn því að það breyti einhverju um drykkjuvenjur hvort vefverslun er skráð til heimilis í Búrgundí eða hér á landi.“
Lauk hún máli sínu með því að segja að Íslendingar ættu að færa þessa verslun heim í hérað, frá Búrgundí í Bústaðahverfið, svo dæmi væri tekið. „Kominn tími til fyrir löngu.“