Mikil eftirvænting ríkir fyrir viðureign íslenska karlalandsliðsins í fótbolta við það hollenska, sem fram fer á Laugardalsvellinum í kvöld. Um er að ræða þriðja leik liðanna í A-riðli forkeppni Evrópumeistaramótsins í knattspyrnu, sem fram fer í Frakklandi árið 2016. Ísland trónir á toppi riðilsins með fullt hús stiga eftir frækna sigra á Tyrkjum og Lettum, sem báðir lyktuðu 3-0.
Tólfan, stuðningssveit íslenska landsliðsins í knattspyrnu, hyggst fjölmenna í N-hólf "nýju" stúkunnar í kvöld sem endranær. "Maður er við það að fríka út," segir Styrmir Gíslason formaður og annar stofnenda Tólfunnar í samtali við Kjarnann.
Vildu breyta stemmningunni í stúkunni
Tólfan var stofnuð árið 2007 af Styrmi og Grétari Erni Eiríkssyni. "Við fórum á leik gegn Lettum, minnir að það hafi verið árið 2006 eða 2007. Við töpuðum leiknum og það voru svona fjórir eða fimm Lettar í stúkunni sem hreinlega eignuðu sér Laugardalsvöllinn. Við Grétar hertum okkur upp og görguðum eitthvað á móti Lettunum, en fengum þá óþægilegt augnaráð frá öðrum vallargestum fyrir að vera að æpa eitthvað á þjóðarleikvanginum. Þá hugsuðum við með okkur að þetta gengi auðvitað ekki."
"Við töpuðum leiknum og það voru svona fjórir eða fimm Lettar í stúkunni sem hreinlega eignuðu sér Laugardalsvöllinn. Við Grétar hertum okkur upp og görguðum eitthvað á móti Lettunum, en fengum þá óþægilegt augnaráð frá öðrum vallargestum fyrir að vera að æpa eitthvað á þjóðarleikvanginum. Þá hugsuðum við með okkur að þetta gengi auðvitað ekki."
Styrmir og Grétar hófu þá leit að fólki til að stofna stuðningssveit fyrir íslenska karlalandsliðið í fótbolta. "Það gekk ótrúlega vel, og Tólfan setti mætingarmet í leik á móti Spánverjum, þegar Eyjólfur Sverrisson var með liðið. Það gekk kannski ekkert voðalega vel hjá landsliðinu á þessum tíma, en það var alltaf gleði hjá Tólfunni."
"Lars og Heimir vildu fá Tólfuna sína aftur"
Dapurt gengi landsliðsins undir stjórn Eyjólfs og svo Ólafs Jóhannessonar dró kraftinn úr Tólfunni, auk þess sem Styrmir flutti út á land og gat því ekki sinnt stuðningssveitinni sem skyldi. Tólfan gekk svo í endurnýjun lífdaga eftir að Lars Lagerbäck og Heimir Hallgríms tóku við íslenska landsliðinu. "Heimir hringdi í mig og boðaði mig á fund með sér og Lars. Ég átti frábæran fund með þeim, en þeir vildu fá Tólfuna sína aftur," segir Styrmir. "Þeir gerðu sér grein fyrir hversu vel þetta helst í hendi, góður stuðningur og velgengni. Hversu mikilvægt það er að hafa einhverja með sér í liði á pöllunum. Þeir báðu okkur um að keyra þetta aftur í gang, sem og við gerðum."
Síðan þá hefur Tólfan verið áberandi í stúkunni, og velgengni landsliðsins hefur vissulega haft sitt að segja með áhuga fólks á að ganga til liðs við stuðningsveitina. "Maður finnur hvað það er auðvelt núna að peppa menn upp í þetta. Landsliðsmennirnir þurfa ekki annað en að minnast á okkur í viðtölum, sem þeir hafa gert, og að stuðningur okkar skipti þá máli. Það eru verðlaunin okkar," segir Styrmir.
Selja treyjur til að eiga fyrir gjallarhornum og trommuskinni
Tólfan heldur ekki félagatal en selur sérstakar stuðningsmannatreyjur, en seldar treyjur í dag eru hátt í þrjú hundruð talsins. Styrktaraðilar Tólfunnar niðurgreiða treyjurnar, en lítil hluti andvirðisins rennur til stuðningssveitarinnar. "Þetta er bara smá peningur sem við þurfum til að halda utan um batteríið, kaupa gjallarhorn og ný trommuskinn. Við fáum ekkert persónulega í okkar hlut, við sem erum að halda utan um þetta," segir Styrmir.
Þegar Tólfan var í fæðingu, fór Styrmir á fund forráðamanna KSÍ til að kynna þeim hugmyndina og leita eftir stuðningi. "Þeir höfðu miklar efasemdir um að þetta myndi virka, þetta hefði verið reynt áður og aldrei gengið almennilega. Þeir voru hins vegar tilbúnir að gefa okkur afslátt á miðum. Í dag hafa þeir séð ljósið og við njótum velvildar þeirra varðandi miðasölu og svoleiðis."
Handviss um að íslenska landsliðið sé á leið á stórmót í fyrsta skipti
Íslenska karlalandsliðið hefur tvisvar att kappi við það hollenska á undanförnum árum. Í hrunleiknum svokallaða, sem fram fór 11. október 2008 í Rotterdam, tapaði íslenska landsliðið fyrir Hollendingum 2-0 í undankeppni HM 2010. Óánægðir viðskiptavinir Landsbankans voru áberandi á pöllunum í þeim leik, og kröfðust þess að Íslendingar stæðu við skuldbindingar sínar vegna Icesave. Síðari leikur þjóðanna í undankeppni HM fór fram á Laugardalsvelli 6. júní 2009, en sá leikur lyktaði með 2-1 sigri Hollendinga. Til marks um endurnýjunina sem hefur átt sér stað í íslenska karlalandsliðinu á síðustu árum, er útlit fyrir að engin leikmaður sem byrjaði leikinn gegn Hollendingum árið 2009, verði í byrjunarliði Íslands í kvöld.
Stuðningsmenn hollenska landsliðsins hafa verið áberandi í miðbæ Reykjavíkur í dag.
"Ég er búinn að spá því að leikurinn í kvöld fari 2-2. Ég held að við gerum jafntefli við Hollendinga í báðum leikjunum okkar við þá í riðlinum, og við förum upp úr riðlinum. Við erum að fara á stórmót í fyrsta skipti, það er klárt. Ég er handviss um það," segir Styrmir Gíslason formaður Tólfunnar.