Töluverð eftirvænting ríkir fyrir viðureign íslenska karlalandsliðsins í fótbolta við landslið Kasakstan í forkeppni Evrópumeistaramótsins í knattspyrnu sem fram fer í dag. Leikurinn verður háður í Astana, höfuðborg Kasakstan, og hefst klukkan 15:00 og verður í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV. Upphitun fyrir viðureignina hefst hálftíma fyrir leik.
Landsliðið hefur aldrei byrjað forkeppni fyrir stórmót í fótbolta jafn vel og nú. Liðið situr í öðru sæti A-riðils með níu stig eftir fjóra leiki, þremur stigum á eftir toppliðið Tékka og þremur stigum betur en stjörnuprýtt landslið Hollendinga, sem situr í þriðja sætinu með sex stig. Þar að auki er íslenska landsliðið með bestu markatöluna í riðlinum, með sjö mörk í plús, hefur skorað níu mörk og fengið á sig tvö. Sjálft Evrópumeistaramótið fer fram í Frakklandi næsta sumar.
Mikil spenna í stuðningssveit landsliðsins
Tólfan, stuðningssveit íslenska landsliðsins í fótbolta, ætlar að hittast á Ölver klukkan eitt til að hita upp fyrir leikinn. Styrmir Gíslason, fyrrverandi formaður Tólfunnar, annar stofnenda og andlegur leiðtogi stuðningssveitarinnar, á von á fjölmenni á Ölver í dag. „Ég er viss um að við smekkfyllum staðinn. Menn eru orðnir þyrstir eftir veturinn að hittast og gera eitthvað skemmtilegt, þannig að ég á von á hörku mætingu,“ segir Styrmir í samtali við Kjarnann.
Mikil spenna ríkir fyrir leiknum á meðal stuðningsmanna íslenska karlalandsliðsins, eins og áður segir, en kom aldrei til greina að hluti þeirra færi með til Kasakstan? „Það kom vel til greina og nokkrir grjótharðir voru með alla anga úti að reyna að koma sér og sínum út til Kasakstan. Þeir gáfust hins vegar upp á því á endanum, þegar þeir sáu hvað ferðalagið yrði langt og kostnaðarsamt. Þannig að menn ákváðu bara að spara sig í staðinn fyrir næsta útileik gegn Hollendingum, og ég get alveg lofað því að það verður eitthvað svakalegt.
Skyldusigur, ekki spurning
Leikurinn í dag er gríðarlega mikilvægur fyrir landsliðið, ætli það að vera áfram með í baráttunni um að komast á stórmót í fótbolta í fyrsta skipti í sögu karlalandsliðsins. „Leikurinn leggst mjög vel í mig og ég hef hörku trú á þessu,“ segir Styrmir aðspurður um hvort ekki sé um að ræða skyldusigur hjá íslenska landsliðinu. „Þjálfarinn hefur sjálfur gefið út að þetta sé skyldusigur, og ég er sammála honum. Þegar maður lítur á liðin þá finnst manni að við eigum að vinna þá. Ég veit alveg að það er erfitt að fara á svona útivöll, en ég held bara að við séum klassa fyrir ofan Kasakana. Við eigum, ef allt er eðlilegt, að vinna þennan leik. Auðvitað getur alltaf komið eitthvað óvænt upp á, en ég er þægilega bjartsýnn fyrir þennan leik,“ segir Styrmir og spáir Íslandi 0-2 sigri gegn Kasakstan.
Leikdagur í Astana. Létt hreyfing í hàdeginu. Allir klàrir.Posted by KSÍ - Knattspyrnusamband Íslands on 27. mars 2015
„Eigum heima á stóra sviðinu“
Ef Ísland sigrar leikinn í dag, verður landsliðið komið í ansi vænlega stöðu. „Ef við vinnum þá erum við auðvitað komnir í fáránlega góða stöðu. Ég viðurkenni fúslega að mér leist ekki á blikuna þegar ég sá riðilinn okkar fyrst, og það var sérstaklega svekkjandi í ljósi þess hvað við vorum nálægt því að komast á síðasta stórmót að fá svona riðil. En strákarnir hafa bara verið ótrúlegir, sem og þjálfararnir og allt teymið í kringum liðið, og við ætlum bara samt að rúlla þessum riðli upp.
Í viðtali við Kjarnann í aðdraganda viðureignar Íslands og Hollands, sem fram fór á Laugardalsvelli þann 13. október síðastliðinn, fullyrti Styrmir að íslenska karlalandsliðið væri á leiðinni á stórmót í fyrsta skiptið í sögunni. „Ég er enn gallharður á því. Ég bara veit að við erum að fara á stórmót í fyrsta skiptið núna. Við erum bara með það gott lið að það á heima á stóra sviðinu,“ segir Styrmir vígreifur í samtali við Kjarnann.